helvíti og háflóð

föstudagur, 23. september
eins og aðrar þjóðir, þá eiga bretar sitt safn af skemmtilegum orðasamböndum. í dag heyrði ég eitt, sem ég hef að vísu heyrt oft áður: hell and high water. ég býst við að þetta orðasamband sé náskylt öðru svipuðu: hell and high tide (sem, til dæmis, söngfuglinn morrissey syngur um í smiths-laginu, what difference does it make?). allavega, orðasambandið er notað þegar vísað er til mikilla erfiðleika, eins og, til að mynda, þegar bretarnir segja: eitthvað eitthvað . . . come hell and high tide, og eiga þá við: sama hvað á dynur, eitthvað eitthvað . . . , og líka: einhver . . . been through hell and high tide, og eiga þá við: einhver . . . hafi gengið í gegnum þungar þrautir.

   en nóg um þetta. það sem mér finnst svo skemmtilegt við orðasambandið er hinn hrikalegi stigsmunur þátta þess: helvítis, annars vegar, og háflóðs, hins vegar (hafi það ekki verið ljóst, þá merkir hvort tveggja, high tide og high water, háflóð). hjá því verður vart komist, helvíti er helvíti. en háflóð, aftur á móti, getur vissulega verið þrándur í götu fyrir suma, en trúlega seint hreinasta helvíti. það, að segja að maður hafi gengið í gegnum helvíti og háflóð, er þess vegna svipað því að segja að maður hafi brotið í sér sérhvert bein og nögl, eða að maður hafi glatað öllu og lyklakippunni líka, eða að maður hafi misst vonina og hárið. fáránlegt.