clxxx

föstudagur, 30. desember
... og enn heldur óvætturinn gylfi áfram för sinni. hér má sjá hann á ferðalagi sínu um rústir st. andrews kastala. umræddur kastali var byggður seint á tólftu öld af roger nokkrum de beaumont. kastalinn var vel nýttur í tæp fimmhundruð ár en þótti síðan skyndilega ekki lengur mönnum sæmilegur í lok sautjándu aldar. um svipað leyti og hugleysingjar slitu búkinn frá höfði jóns biskups arasonar á íslandi átti sér stað sögufrægt umsátur við kastalann: kaþólskir sátu þar um fylgisveina og -meyjar lúthers í hálft annað ár og reyndu með ráðum og dáðum að ryðjast inn fyrir kastalaveggina til þess að koma–að þeir sjálfir töldu allavega–vitinu fyrir félaga sína sem þar hírðust.

clxxix

fimmtudagur, 15. desember
... og er þá komið að öðrum kapitula í sögu gylfa. er hér kemur við sögu er gylfi að spóka sig á hinni svokölluðu löngu bryggju (long pier). til þess að forða lesendum frá leiðum misskilningi þykkir þó rétt að geta þess að langa bryggja er hvorki sérlega löng né gott bátalægi.

clxxviii

fimmtudagur, 8. desember
til þess að kveðja st. andrews tók ég myndir af nokkrum helstu kennileitum þorpsins. í forgrunni þeirra má sjá lítið, gult og vinalegt skrímsli sem ber hið forna nafn gylfi. má því ef til vill segja að ég hafi—líkt og konungarnir hár, jafnhár og þriðji forðum—frætt gylfa í gervi ganglera um framandi ríki og íbúa þess.

er nú hér fyrsti þátturinn í sögu gylfa ...

clxxvii

mánudagur, 28. nóvember
girðingar—og svosem veggir af sérhverju tagi—eru til margra hluta. það eitt, að halda einhverjum úti úti eða inni inni, er augljós kostur. en öllu djúpstæðari er samt eftirfarandi eiginleiki: við það eitt að reisa girðingu getur eitthvað sem áður var ekkert orðið úti eða inni eftir atvikum í einni andrá.



clxxvi

fimmtudagur, 24. nóvember
stundum nægir að koma hversdagslegum hlutum á óvenjulega staði til þess að gera þá framandi.*



*og svo eru líka sumir sem gera alla hluti og alla staði framandi ...

clxxv

mánudagur, 14. nóvember
spor í sandi eru ljóðrænn minnisvarði þess sem eitt sinn var; en jafnframt þörf áminning þess, hversu auðvelt það er, að vera vitur þegar allt er yfir staðið. það er ef til vill einmitt þess vegna að við íslendingar höfum löngum valið okkur öllu erfiðara markmið, nefnilega það, að vera vitlausir eftir á ...

clxxiv

sunnudagur, 6. nóvember
sandkastalar hafa löngum þótt fyrirtaks myndlíking illa ígrundaðra athafna og afurða þeirra. ef til vill er samt stundum rétt að nema staðar, meta þá í sínu rétta ljósi og njóta þeirra í þau örfáu andartök er þeir standa.

clxxiii

þriðjudagur, 1. nóvember

eftir ansi langt hlé, þá finnst tími til kominn að snúa aftur. að vísu er víking mínum fyrir löngu lokið en ég tek engu að síður enn myndir endrum og eins og stundum oftar en ekki. til þess að marka endurkomu mína ætla ég að útvarpa tveimur myndum af eyjum íslands. önnur úr flatey, þar sem í fjarska má sjá klofning, blindsker og stálfjall, hin frá reykjaströnd undan tindastól, þaðan sem sjá má drangey.




clxxii

mánudagur, 5 apríl
ég tók þessar fjórar myndir á ferðalagi mínu um putaland.* eins og lemuel gulliver í sögu swifts varð áskynja, þá verður maður að stíga afar varlega til jarðar í putalandi.









*nei, þetta er ekki alveg samkvæmt sannleikanum: ég hef aldrei komið til putalands. hinsvegar, þá frétti ég um daginn að canon ætlaði að innbyggja svokallaðan miniature fídus í næstu kynslóð p&s véla sinna. lengi vel þá var aðeins hægt að ná svona myndum með þartilgerðum (og rándýrum) tilt-shift linsum. aftur á móti, fyrst hægt er að byggja svona lagað inn í litlar p&s vélar, þá dróg ég þá ályktun að hægt væri að ná þessum fídus fram í photoshop. og viti menn, eftir nokkrar tilraunir, þá náði ég ásættanlegum árangri. ég verð að viðurkenna að myndirnar sjálfar eru ekki sérlega spennandi en þær þjónuðu tilgangnum þó þokkalega. ég læt öðrum eftir að dæma hvort tilraunirnar hafi verið erfiðins verðar.

clxxi

mánudagur, 22. mars
„mynd vikunnar“ er sennilega orðið ansi misvísandi lýsing á þessum gjörningi. allt of oft hafa vikurnar orðið afmyndaðar af einni eða annari ástæðu. og þónokkrar vikur hafa tekið á sig ófáar og afar ólíkar myndir. engu að síður, þá mætti færa fyrir því ágætis rök að ákveðna lýsingin „mynd vikunnar“ sé fyrir löngu orðin að nafni þessa fyrirbæris. í öllu falli, þá ætla ég að leyfa mér að lauma út nokkrum myndum í þeirri veiku von að ég mér leyfist kalla þær „mynd vikunnar“.







clxx

þriðjudagur, 9. mars
já, seisei, hér eru þá nokkrar myndir til viðbótar frá íslandi. nánar tiltekið, þessar myndir eru teknar ofan af svokölluðum skeggja sem má finna án sérstakrar fyrirhafnar á hengilsvæðinu.





clxix

mánudagur, 1. mars
já, ég bið yður auðmjúklega afsökunar. ég veit vel að ég hef ekki staðið mig upp á síðkastið. mér finnst það mjög leiðinlegt en þannig er það víst bara stundum. nei, ég get ekki einu sinni brugðið fyrir mig þeirri afsökun sem ég hef allra oftast gert hingað til: ég á engar myndir á reiðum höndum. þvert á móti, ég á alltof mikið af myndum í augnablikinu! sannleikurinn er bara sá að ég var eiginlega búinn gleyma þessu litla myndabloggi mínu. aum afsökun, já, en engu að síður sú sannasta sem ég get gefið. allavega, þar sem ég hef enga sérstaka trú á refsingum en þess meiri trú á betrun, þá vil ég sýna iðrun mína í verki: til þess að bæta upp fyrir þögn síðustu fimm vikna, þá færi ég nú fram, fullur auðmýktar og æðruleysis, jafnmargar myndir. já, myndirnar eru allar frá íslandi eins og það leit út fyrir mér síðastliðið sumar. um þær er ekki mikið meira að segja en það.









clxviii

fimmtudagur, 17. desember
þetta er víst síðasta myndin í bili. á morgun mun ég hverfa á ný til föðurlandsins og gleyma mér í móðurmálinu í nokkrar vikur. þar til næst, takk. og já, ég óska yður vissulega gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. það er bara þannig.

clxvii

föstudagur, 11. desember
mynd vikunar kemur alla leið frá ungverjalandi. já, hugsa sér bara ...