bæ í bili

laugardagur, 25. mars
hananú. þá er ég farinn á ráðstefnu til edinborgar yfir helgina (fyrir áhugasama um svona, þá er þetta ráðstefnan). því næst, á mánudagsmorguninn til þess að vera nákvæmur, er ég floginn á vit ævintýranna til svíþjóðar.

ég kveð því að sinni. þar til næst, megi gæfan fylgja ykkur.

mynd vikunnar, xxiii

fimmtudagur, 23. mars
allt í lagi. mynd vikunar er enn einu sinni af st. andrews kastala (eða því sem eftir stendur af honum). ef myndin er vandlega skoðuð, þá má sjá að litaþema síðustu vikna er ei meir.

þegar í skotlandi, þá lætur maður eins og skoti

sunnudagur, 19. mars
um daginn fékk ég pöntun á mynd af mér á skoska vegu sem ætlunin var að nota í einhverjum spaugilegum tilgangi. þar sem ég er ekki aðeins athafnamaður heldur einnig háðfugl--ef svo liggur á mér--þá gat ég ekki sniðgengið þessa ósk. mér til fulltingins fékk ég snjalla meik-up-listakonu og búninga-expert, en sjálfur sá ég um fyrirsetu og myndvinnslu. mér skilst að afurðin hafi vakið talsverða lukku, og þess vegna hef ég ákveðið að deila henni með þér, kæri lesandi.


jíha, skotland að eilífu . . . eða eitthvað svoleiðis.

kastalar, draugar, o.þ.h.

laugadagur, 18. mars
í dag brá ég fyrir mig betri fætinum og heimsótti kastala. glamis kastala til þess að vera nákvæmur. kastalaeigendurnir voru voðalega almennilegir og leyfðu mér að skoða salarkynnin hátt og lágt. glamis kastali er einkum fyrir tvennt þekkur: að hafa verið heimilli drottningarmóðurinnar og draugagang. það voru mér þónokkur vonbrigði að rekast á hvorugt (og reyndar, ef ég hefði rekist á hina fyrrnefndu, þá hefði ég trúlega rekist á hina síðarnefndu sömuleiðis, blessuð sé minning hennar). kastalinn var samt hrikalega viðkunnalegur, þannig að eiginlega hefði ég ekki haft neitt á móti því að búa þar um sinn.

   það rann upp fyrir mér að það eru alls engir kastalar á íslandi. ekki einu sinni neitt sem líkist kastala. sem er svolítið skrítið. það á sér kannski sínar skýringar að engir kastalar voru byggðir þar áður fyrr, en hvernig stendur á því að smekklausu nýríku íslendingarnir okkar hafa ekki látið verða að því? annað eins hefur nú gerst.

fjörfiskur

föstudagur, 17. mars
í dag bar fjörfisk að garði. eiginlega var þetta örfjörfiskur, því hann nam ekki staðar hjá mér nema í hálfa sekúndu og svo var hann aftur á veg. þeir eru ögn skrítnir þessir fjörfiskar. ef svokallaðir furðufiskar finnast, þá er fjörfiskurinn eflaust einn þeirra, því augljóslega er hann tæpast fiskur.

   hvaðan þeir koma og hvert þeir fara, hvers vegna þeir koma og hvers vegna þeir fara, það eru allt heillandi spurningar. ég gæti hæglega hent í eina frumspekilega frásögn í ævintýrastíl um tilurð þeirra og tilgang, en ég læt samt slíkt vera að sinni. aftur á móti, það sem sótti á huga minn þegar fjörfiskurinn sótti á auga mitt var: hvers vegna við köllum hann fjörfisk, af hverju ekki fjörkálf eða fjörefni eða fjörgyn? svona í alvöru talað, það hlýtur að vera einhver saga hérna. ég er búinn að skoða orðabókina mína, og eins og við var að búast sagði hún mér ekkert nema það sem ég vissi, enda engin orðsifjabók.

   ef þú, kæri lesandi, getur upplýst mig, þá væri það afar vel þegið. ég kveð að sinni. góða nótt, og megi gæfan fylgja þér.

mynd vikunnar, xxii

miðvikudagur, 15. mars
meira af því sama, afsakið ófrumleikann.

meiri snjór

mánudagur, 13. mars
viti menn, þegar ég vaknaði var allt hvítt. næstum kviknakinn hljóp ég út og velti mér upp úr snjónum í gleði minni. illri heilli varði ástandið ekki svo lengi, því að seinni partinn--rétt eins og síðast--var allt ringt burt. en það var þó á meðan það var, og ólíkt svo oft áður, þá vissi ég hvað ég átti áður en ég missti það. enn og aftur er ég heillaður af þorpinu mínu hvítu.

frídagur

laugadagur, 11. mars
í dag lagði ég í lítið ferðalag til edinborgar. með mér í för voru þeir andreas og daniel, sem eru dygir bræður mínir í baráttunni gegn óskynsemi, hjáfræði og kukli.

   í dag heimsótti ég nýlistasafn edinborgar og dean safnið (sem er líka nýlistasafn). eins og gefur að skilja þá hafði ég hrikalega gaman af slíkum heimsóknum. það kann að kallast örlítil ónáttúra, en ég gæti eytt ævinni á nýlistasafni.

   í dag borðaði ég hádegismat hjá valvona og crolla. valvona og crolla er sælkeraverslun og veitingastaður sem á sér fáa svipaða í gervöllu heimsveldinu . . . kannski í öllum heiminum. ef leið þín, kæri lesandi, liggur einhvern tímann til skotlands, þá er þetta staðurinn til þess að heimsækja. þetta er enn best varðveitta leyndarmál skotlands.

í dag var vel varið.

mynd vikunnar, xxi

fimmtudagur, 9. mars
næmir lesendur eru máski farnir að átta sig á ákveðinni endurtekningu í myndum síðustu vikna. jafnvel svo að jaðra kann við þema. og ef einhver er ekki búinn að átta sig á hvað ég á við: ýktir litir. ég afsaka ófrumleikann, en þessa dagana er ég hrikalega litaglaður í ljósmyndum mínum. segið það sem viljið segja, en litir geta bara verið svo skemmtilegir.

mynd vikunnar, xx

laugadagur, 4. mars
mynd vikunnar er það þessu sinni sjálfsmynd. eins og þeir sem glöggt þekkja til mín vita, þá er ég aldrei algjörlega allur þar sem ég er. fyrir það vil ég biðjast fyrirgefningar.

snjór

föstudagur, 3. mars
loksins! já, loksins! eftir sjö ára bið fæ ég loksins að sjá snjó. þar sem vorið var eiginlega komið--eða svo hélt ég allavega--var ég eiginlega búinn að gefa upp alla von um að sjá bæinn minn þakinn snjó. góðu heilli reyndist ég hafa rangt fyrir mér, því þegar ég sat og drakk morgunkaffið mitt og horfði á heiminn líða hjá, þá byrjaði fyrirvaralaust að kyngja niður snjó. það stóð reyndar ekki yfir lengi--nei, varla lengur en það tók mig að klára kaffið--en samt, þegar upp var staðið, þá var þorpið mitt orðið alhvít. oft áður hef ég furðað mig á fegurð þessa staðar, en aldrei áður hef ég séð hann eins fallegan og nú í morgun.

mögulegur heimur

miðvikudagur, 1. mars
alltílæ' gott fólk. það er mér bæði til heiðurs og hamingju að kynna breytta heimsskipan. þar sem ég er ekki lengur í slagtogi við háskóla íslands, þá missti ég vef-plássið mitt hjá þeim. í stað þess að örvænta þá tók ég óhræddur málin, ef svo mætti segja, í mínar hendur:

possible-world.net: þetta er nýja heimasíðan mín.

blog.possible-world.net: (andri kur) er fluttur hingað.

postmodern boy: postmodern boy er aftur búinn að öðlast sjálfstæði (einhvern veginn vissi ég alltaf að svo færi). til eru lesendur þessarar síðu sem finnst slíkt eflausr hið mesta gleðiefni, og óska ég þeim til hamingju. en fyrir alla aðra, þá er postmodern boy enn á lífi á sínum stað.

photography.possible-world.net: ljósmyndirnar mínar eru komnar hingað. eða allavega einhver hluti af þeim. ég mun reyna að flytja afganginn, og auðvitað bæta við eftir andríki, þegar tími gefst.

njótið nú vel.