xciii

þriðjudagur, 11. desember
hananú, þá er víst komið að síðustu myndinni að sinni. ástæða þess er afar einföld: næstkomandi sunnudag held ég enn á ný á vit ævintýranna til íslands. ég vona innilega að einhverjum kunni að finnast slíkt tilhlökkunarvert. en þrátt fyrir að ég gangi að slíku sem vissu, þá þykist ég samt vita að fáum finnist eins ofboðslega mikið til þess koma og mér: ég hef aldrei hlakkað jafn hræðilega til þess að koma heim og einmitt núna.

en hvað um það, mynd vikunnar er áframhald af ættjarðaróð undanfarna vikna. myndin að þessu sinni er einnig úr þjóðgarðinum við skaftafell. þessi mynd er tekin af skaftafellsheiði til austurs í þeirri birtu sem mér finnst hvað íslenskust. á myndinni má sjá skaftafellsjökul og svínafellsjökul. þeirra á milli er hafrafell með sína alræmdu efrimenn, fremrimenn og illukletta. á bak við svinafellsjökul má sjá svínafellsheiði, þar sem skarðatindur gnæfir hæðst og skyggir ásamt stöku skýji á hvannadalskamb. ögn ofar í skýjunum leynist svo dyrhamar og hvannadalshnjúkur. en eins og allir vita, þá er umræddur hvannadalshnjúkur hæðsta fjall hins íslenska heimsveldis.

allavega, þetta er kveðjustund að sinni. svona að lokum vil ég því óska öllum gleðilegra jóla og alls hins besta. takk fyrir allt.

xcii

fimmtudagur, 6. desember
og nú, gott fólk, erum við loks komin í þjóðgarðinn við skaftafell. í umræddum þjóðgarði má finna svokallaðan svartafoss. þess má til gamans geta að eftirfarandi mynd er einmitt tekin undir fyrrnefndum fossi.

xci

laugardagur, 1. desember
það er náttúrlulega við hæfi að ég haldi áfram í dag, á afmælisdegi fullveldis íslands. enn um sinn erum við stödd á suðurlandi, nánar til tekið við dyrhóley. sagan segir að dyrhóley hafi runnið undan rifjum jarðar fyrir eitthundraðþúsund árum, eða á síðasta svokallaða hlýskeiði ísaldar. já, ímyndið ykkur bara.