fjörfiskur
föstudagur, 17. marsí dag bar fjörfisk að garði. eiginlega var þetta örfjörfiskur, því hann nam ekki staðar hjá mér nema í hálfa sekúndu og svo var hann aftur á veg. þeir eru ögn skrítnir þessir fjörfiskar. ef svokallaðir furðufiskar finnast, þá er fjörfiskurinn eflaust einn þeirra, því augljóslega er hann tæpast fiskur.
hvaðan þeir koma og hvert þeir fara, hvers vegna þeir koma og hvers vegna þeir fara, það eru allt heillandi spurningar. ég gæti hæglega hent í eina frumspekilega frásögn í ævintýrastíl um tilurð þeirra og tilgang, en ég læt samt slíkt vera að sinni. aftur á móti, það sem sótti á huga minn þegar fjörfiskurinn sótti á auga mitt var: hvers vegna við köllum hann fjörfisk, af hverju ekki fjörkálf eða fjörefni eða fjörgyn? svona í alvöru talað, það hlýtur að vera einhver saga hérna. ég er búinn að skoða orðabókina mína, og eins og við var að búast sagði hún mér ekkert nema það sem ég vissi, enda engin orðsifjabók.
ef þú, kæri lesandi, getur upplýst mig, þá væri það afar vel þegið. ég kveð að sinni. góða nótt, og megi gæfan fylgja þér.
skoðanir:
segðu þína skoðun
til baka