póstmodernískir strákar lesa bækur

laugardagur, 24. september

fahrenheit 451 eftir ray bradbury (1953)
þetta vissi ég ekki: við 451 gráðu á farenheit (sem eru u.þ.b. 233 gráður á selsíus) þá byrjar pappír að brenna. með öðrum orðum, ef ég myndi fíra svo hressilega upp í miðstöðinni að hitinn færi upp í 233° hjá mér, þá myndi blossa upp í eldur í sérhverri bók . . . og að því virtist sjálfkrafa. ég veit nú samt ekki hvort þessi tala eigi við um sérhverja gerð af pappír; til að mynda, þá finnst mér ekki ósennilegt að glanspappír (svona eins og er í tímaritum og ljósmyndabókum) og klórskolaður pappír (svona skínandi hvítur pappír) hafi allt annað íkveikjumark en venjulegur bókapappír. en hvað um það, slíkt skiptir sko ekki öllu máli, þetta var bara það fyrsta (og ómerkilegasta) af öllu því sem ég lærði af þessari bók.

   en vá. þessi bók kom mér afar skemmtilega á óvart. ég bjóst ekki við neinu sérstöku þegar ég byrjaði að lesa söguna, en fljótlega fékk ég á tilfinninguna að þetta væri ein þessa amerísku bóka sem voru skrifaðar á árunum eftir seinni heimstyrjöldina sem áttu á einn hátt eða annan að gera augljósa hina hrikalegu yfirburði hins ameríska lífsmáta. en mér skjátlaðist: eftir ekki nema tuttugu blaðsíður varð mér ljóst að hér var á ferðinni afar beitt samfélagsgagnrýni, sem á ekki síður við í dag (jafnvel frekar, ef eitthvað er), en hún átti við fyrir rúmum fimmtíu árum. sagan segir af framtíðarsamfélagi sem virðist hætt að hugsa og er firrt allri ábyrgð, og á í tilgangslausu stríði við heim sem hatar það af ástæðum sem það fær ekki skilið. (ég hef ekki orð á því augljósa.)

   það sem gerði samfélag sögunar svo afar trúverðugt var það, að það var búið að mála sig sjálft út í horn. það var ekki illur einræðisherra eða leynileg samtök á vegum ríkisstjórnarinnar eða hryðjuverkamenn eða skrattinn sjálfur, heldur var það fólkið sjálft sem átti sökina. og það sem var kannski enn hrikalegra (og gerði þetta jafnframt enn trúverðugra) var það, að hnignun samfélagsins var afleiðing göfugra hugsjóna og góðra ætlana. örlítið svona eins og maður myndi ætla að hlutirnir séu í alvörunni.