á leiðinni að heiman heim

föstudagur, 6. janúar
jæja, þá er ég kominn í mitt litla horn heimsins á ný. það var ögn skrítið að koma hingað í gær, því af einhverjum ástæðum fannst mér engu líkara en ég væri að koma heim. af þeirri ástæðu var ég á leiðinni að heiman heim, sem augljóslega virðist þversagnakennt ástand, ögn eins og ljóð sem lifna og deyja í senn, eins og segir í kvæðinu til eru fræ. en eins og glöggir lesendur átta sig á, þá er slík þversögn aðeins á yfirborðinu (ég veit samt ekki hvað verður samt um það sem lifnar og deyr í senn).

   hvað um það, ég er semsagt kominn heim á ný og byrjaður að vinna af fullum þunga. lífið er því ögn óraunverulegt (jafnvel súrrealískt), því þessa dagana er mælikvarði þeirra fjöldi orða (rétt, fjörið er án sleitu hérna). til að mynda er góður dagur á milli eitt þúsund og fimmtán hundruð orða. nú kann einhver að hugsa, fimmtán hundruð orð? það er ekki neitt, ég gæti skrifað fimmtán hundruð orð á klukkutíma. við því hef ég aðeins eitt að segja: ég líka. en það, að skrifa heimspeki, er eins og þeir sem til þess þekkja vita harla ólíkt innantómum stafsetningaæfingum (nema ef um meginlandsheimspeki ræðir, þá er það eflaust svipað). fyrir þá sem til þess þekkja að mæla afköst sín í erindum eða forritslínum, þá er heimspeki ekki svo margt ósvipuð: í þessum tilfellum skiptir það öllu máli hvað þessar línur innihalda en minna hver fjöldi þeirra er; og öllu mikilvægar, þá er það, það hvernig þessar línur virka saman, sem gæfumuninn gerir.