pms: bók

miðvikudagur, 28. september

a wild sheep chase eftir haruki murakami (1982)
ég viðurkenni það alveg, að ég les örlítð af bókum. og þegar maður les örlítið af bókum, þá eignast maður fyrr eða síðar uppáhalds höfunda. samt alls ekki þannig uppáhalds höfunda eins og sumir eiga uppáhalds fótboltalið (eða jafnvel stjórnmálaflokka), heldur meira svona uppáhalds höfunda vegna þess að sögur þeirra finna sér ákveðinn stað í hjarta manns. fyrir mig, þá er don delillo einn slíkur. paul auster er einn slíkur. og--síðast en ekki síst--þá er haruki murakami einn slíkur.

   ég er hvorki neinn sérfræðingur um bækur murakamis né um hann sjálfan; til að mynda, þá hef ég aðeins lesið fimm aðrar bækur eftir hann (að þessari undanskilini), ég veit sáralítið um sögusvið sagna hans og þá menningu sem þær spretta upp úr, og ég veit næstum ekkert um murakami sjálfan. samt sem áður, þá finnst mér eins og sérhver saga hans sem ég hef lesið hingað til, sé eins og gerð fyrir mig. ég efast um að ég sé slíku verki vaxinn, en ef ég ætti að skrifa bók til þess að hafa ofan af fyrir sjálfum mér sem lesanda, þá myndi ég ég skrifa einmitt eins og murakami. í sem fæstum orðum: bækur murakami eru eiginlega töfrum líkastar . . . og allavega fyrir mig, þá fæ ég alls ekki séð í gegnum galdrana.

   þegar ég byrjaði á þessari bók, þá var ég ögn hræddur um að það væri kannski einhver byrjandabragur á henni, þar sem hún er jú frá 1982, þegar murakami var ekki nema 33 ára. og það reyndist rétt á vissan hátt. ef, til að mynda, maður ber saman þessa bók og nýjustu bók hans, kafka on the shore, þá skín þroski hans og fágun sem höfundur út úr þeirri síðarnefndu, á meðan allt við þessa bók er ögn óslípaðra og hrárra. engu að síður, þá er a wild sheep chase stórkostleg bók: murakami gerir djarfar tilraunir og--í það minnsta gagnvart mér--kemst fullkomlega upp með þær.