dagurinn þegar tónlistin öðlaðist nýja merkingu

miðvikudagur, 11. janúar

það kann eflaust að hljóma eins og ég sé einn af fólkinu hjá sirrý þegar ég segi að eitthvað hafi öðlast nýja merkingu--en svo verður það víst bara að vera. í dag eignaðist ég ný heddfón, sem er svosem ekki í frásögur færandi nema fyrir það eitt að tónlistin hljómar ekki lengur eins. ég hef alltaf verið vandlátur hrokagikkur þegar að heddfónun kemur (og kannski ýmsu öðru), en þegar þau síðustu fóru að láta á sjá þá nýtti ég mér auðvitað til hins ítrasta að búa í bakgarðinum á ebay.co.uk.

   í allan dag hef ég heyrt hljóð sem ég hef aldrei áður heyrt í tónlist sem ég hef samt heyrt ótal sinnum. til að mynda, á meðan ég er að skrifa þessi orð er ég að hlusta á plötuna yesterday was dramatic, today is ok eftir múm, og ég er að heyra hana eins og aldrei fyrr. áður óheyranleg bakgrunnshljóð og jafnvel heilu hljóðfærin eru að skjóta upp kollinum í allri uppáhalds tónlistinni minni. ég sé fyrir mér að fram á vor verði ég að hlusta aftur á alla tónlistina mína til þess að uppgötva allt það sem ég virðist hafa farið á mis við. og--leyfi ég mér að bæta við--það eru spennandi tímar framundan.

   en þar sem eru skammrif, þar eru alltaf einhverjir bögglar. þegar maður er staddur í miðjum próflestri, þá er nokkuð eins og að enduruppgvöta tónlistina hættulegur leikur, því næst væri manni skapi að loka augunum og hlusta. en það má bíða í nokkra daga. og til þess að enda þetta í sama tón og ég byrjaði þetta: þetta er búið að vera einstök upplifun.

skoðanir:

13.1.06, Anonymous Anonymous sagði:

eru "áður óheyranlegu bakgrunnshlóðin" ekki bara suðið í loftræstingunni eða syngjandi þröstur út í garði? ég hlakka annars til prufa metallica í heddfónunum ;P

 
14.1.06, Anonymous Anonymous sagði:

vertu þægur, litli vinur.

 
16.1.06, Anonymous Anonymous sagði:

iHola hombre! Hvaða tegund keyptirðu?

Sjáumst,

ARnar

 
16.1.06, Anonymous Anonymous sagði:

sennheiser hd 25.

 

segðu þína skoðun

til baka