módernískur mórall

fimmtudagur, 29. september
í breska dagblaðinu times er daglega dálkur sem nefnist modern morals, sem þýða mætti niður á íslensku sem nútíma siðferði, eða, til þess að halda hljómnum á kostnað merkingarinnar, módernískur mórall. en hvað um það, hvað svona ætti að heita á íslandi skiptir tæplega öllu máli.

   þessi dálkur er þannig úr garði gerður, að lesendur senda inn örstuttar lýsingar á siðferðilegum vandamálum sínum, og dálkahöfundur leysir úr þeim, hverju á fætur öðru, einu á dag. flest vandamálanna eru ekki sérlega íþyngjandi (í öllu falli aldrei neitt sem siðfræðingar myndu nefna dílemmu). til að mynda spurði einn lesandi eitthvað á þessa leið: ég fer út að borða, maturinn er vondur og þjónustan afleidd; þegar ég bið um reikninginn, þá kemur þjónninn með reikning, sem er augljóslega ætlaður öðru borði, upp á þriðjung þess sem ég ætti að borga; ætti ég, í ljósi óánægju minnar, að borga reikninginn og fara, eða leiðrétta mistökinn og borga fyrir það sem ég pantaði? siðfræðingur times greiðir svo úr flækjunni á einföldu og skýru máli, án allra tilvísana í siðfræðileg hugtök, sem allir lesendur geta hæglega skilið . . . og vonandi breytt eftir.

   gott og vel, hugmyndin er ekki sérlega slæm, svo lengi sem lesendur blaðsins eru tilbúnir að fylgja ráðleggingum og breyta rétt. þetta gæti meira að segja skapað störf fyrir þúsundir heimspekinga við að leysa úr hversdagskrísum fólks sem virðist orðið þess ófært sjálft. stjórnmálamenn og stjórnendur sumra fyrirtækja gætu jafnvel séð sóma sinn í því að nota slíka þjónustu.

   en maður spyr sig samt, hvað er svona módernísk við þetta allt? fólk hefur alltaf staðið frammi fyrir siðferðilegum vandamálum. og eðli þeirra hefur ekki breyst mikið í gegnum aldirnar. kannski það sé þetta: nútímafólk er búið að glata hæfileikanum til þess að leysa farsællega úr sínum siðferðilegu vandamálum sjálft. í siðleysi samtímans er fólkið einfaldlega búið að missa getuna til þess að greina rétt frá röngu.

   ef rétt reynist, þá er útlitið ekki bjart. en óneitanlega er það þó huggun harmi gegn að fólk hefur enn þá viljann til þess að reyna. að minnsta kosti einhverjir . . . enn þá allavega.