ungi gamli maðurinn

föstudagur, 30. september
í gegnum tíðina hef ég kynnst ófáu gömlu ungu fólki. gamalt ungt fólk er ungt fólk sem liggur afar mikið á að verða fullorðið, og fer þess vegna yfirleitt á mis við afar dýrmætan hluta lífs síns. svo mætti segja að gamalt ungt fólk sé fólk af því tagi sem er mikið kappsmál að komast sem allra fyrst í jakkafötin. með öðrum örðum, af þeim sem gleyma sér í lífsgæðakapphlaupinu svokallaða, þá er gamla unga fólkið, fólkið sem þjófstartar. samt sem áður, þá er gamla unga fólkið alveg sömu kjánarnir og allt hitt unga fólkið, eiginlega ekkert annað en ungt fólk í afar kjánalegum fullorðinsleik. en velji sér hver sitt.

   fyrir skemmstu hitti ég mann hérna sem er eitthvað bogið við. hvað það er, sem er svona öðruvísi, kom ég samt ekki alveg orðum að í fyrstu. en síðan rann það allt í einu upp fyrir: þarna er á ferðinni einn af unga gamla fólkinu. hingað til hef ég aldrei rekist á slíkan mann, en þessi strákur er næstum andhverfa gamla unga fólksins, í því að gamla unga fólkið er ungt að reyna að vera fullorðið, en unga gamla fólkið, er fullorðið að reyna að vera ungt. þessi strákur er ungur að árum (yngri en ég í öllu falli), en allt annað við hann er gamalt og ævafornt. hvernig hann talar, hvernig hann hreyfir sig, hvernig hann hugsar, og hver afstaða hans er til heimsins, allt minnir mann eina helst á forhertan aldraðan karlfauta. en engu að síður, forhertan aldraðan karlfauta í líkama rúmlega tvítugs manns.

   og fyrir vikið get ég varla slitið augun af þessum manni. þegar maður er áttaviltur, þá getur maður ekki með góðu móti séð hvort vatn rennur upp eða niður í móti--eða jafnvel hvort það renni yfirleitt. og það er einmitt sama tilfinningin sem grípur mig þegar ég fylgist með þessum strák. mig skortir einfaldlega hugtök til þess að átta mig á þessari þversögn sem hann er. gamla unga fólkið er auðskilið, en unga gamla fólkið er mér ráðgáta enn.