pms: tónlist

laugadagur, 29. október

amore del tropico eftir the black heart procession (2002)
þar sem ég er orðinn fátækur námsmaður (eins og ég hafi nokkurn tímann verðið eitthvað annað), þá verð ég að halda aftur af mér í tónlistarinnkaupum. með styrkri hönd og einbeittum vilja er ég búinn að trappa neyslu mína niður í eina plötu á mánuði. eins og þeir sem til þekkja vita, þá er slíkt ekki lítið afrek, og einkum og sér í lagi ef haft er í huga að hérna leynist lítil en furðu góð plötubúð (sem minnir mig ögn á hljómalind, þegar hún var í sem mestum blóma). búðin heitir unknown pleasures eftir fyrstu plötu joy division (1979), sem segir eflaust sína sögu--það sagði mér allavega ákveðna sögu. búðin selur einna helst notaðar vínylplötur og geisladiska, en inn á milli má þó stundum líka finna nýja diska. þrátt fyrir að úrvalið sé lítið, þá skiptir það engu máli, því svo virðist vera að innkaupastjórinn hafi næstum sama tónlistarsmekk og undirritaður. og það besta af öllu er, að diskarnir kosta yfirleitt fimm eða sex pund, sem er ekki nema fjórðungur þess sem maður myndi borga á íslandi.

   en jæja, þá er það semsagt plata mánaðarins. amore del tropico eftir bhp er fyrir margra hluta sakir merkileg plata. bhp hljómar eins og skemmtileg blanda tom waits á bone machine skeiðinu (1992) og nick cave í seinni tíð. þrátt fyrir að greina megi þessa þræði í tónlistinni, þá verður samt framlag bhp alls ekki dregið í efa: á einhvern undraverðan hátt tekst þessum strákum frá hinni sólríku kaliforníu að semja og flytja drungafulla og hráslagalega tónlist sem minnir mig alltaf á nítjándu aldar draugasögu. ég er ekki þaulkunnugur tónlist bhp, en í fórum mínum luma ég einnig á eintaki annarar plötu þeirra, 2 (1999), sem er einnig afar vel heppnað verk. í samanburði við 2 er tónlist amore del tropico öllu flóknari og unnari, en engu að síður er það sami rauði þráðurinn sem rennur í gegnum þær báðar. það er eitthvað við þessa tónlist sem fær alltaf hárin á mér til þess að rísa.

   og svona að lokum, staðreynd sem setur hlutina í smá samhengi: pall jenkins, sem er aðalmaður bhp, vann mjög náið með jimmy lavelle, sigur rós og animu við gerð nýjustu plötu album leafs, in a safe place (2004), sem var að mestu leiti tekin upp í sundlaug sigur rósar í mosfellsbæ. pall jenkins er meira að segja skrifaður fyrir tveimur lögum plötunnar ásamt jimmy lavelle, on your way og eastren glow, sem sá fyrrnefndi syngur á sinn hráslagalega hátt. og jafnvel, ef maður leggur vel við hlustir, þá þarf ekki glöggt eyra til þess að heyra hin drungalega blæ sem gegnsýrir tónlist bhp í þessum lögum.