krumpur i teppinu

laugardagur, 22. október
í gær var ég á skemmtilegum fyrirlestri í föstudagsklúbbnum, sem fjallaði um ónákvæma hluti (þetta er djörf þýðing hjá mér, en fyrir þá sem hafa áhuga, þá er það ontic vagueness sem ég er að tuða um). nú nú, fyrir þá sem ekki vita, þá er ónákvæmni poppið í heimspekinni í dag, og er búin að vera það síðustu þrjátíu árin. til þess að fyrirbyggja allan misskilning, þá á þetta tískufyrirbæri auðvitað ekkert skylt við önnur slík fyrirbæri, vegna þess að allt í heimspekinni er auðvitað grafalvarlegt (eða það höldum við allavega).

   en já, semsagt ónákvæmni vísar að minnsta kosti til orða (eða hugtaka) eins og sköllóttur, þar sem mörkin á milli sköllóttur og ekki sköllóttur eru óljós. til dæmis, þá geta allir verið sammála um það, að davíð oddsson er ekki sköllóttur, á meðan steingrímur j. sigfússon er augljóslega sköllóttur, en tilfelli sem eru--svo að segja--á jaðrinum eru ekki ljós, eins og pétur blöndal: er hann sköllóttur eða ekki? og sköllóttur er auðvitað ekki eina orðið, málið er næstum bókstaflega fullt af þeim.

   margir eru sammála um það, að þessi ónákvæmni eigi rætur sínar í málinu (eða hugtakanetinu), og ef, til að mynda, orð eins og sköllóttur yrðu fastskorðuð í eitt skipti fyrir öll, til dæmis með því að skilgreina sköllóttur sem eiginleikann að hafa færri en tíu þúsund hár á kollinum, þá væri auðvitað ekki nokkur spurning um hvort pétur blöndal væri sköllóttur eða ekki. en auðvitað er ekkert hlaupið að því. þetta er hvorki meira né minna en nýtt tungumál (og hugtakakerfi) sem við þurfum. til eru þeir sem segja, að jafnvel þó við myndum reyna slíkt, þá væri það ekki hægt, því ef við myndum reyna að slétta krumpurnar í merkingarteppinu, þá myndu þær einfaldlega birtast annars staðar. um slíkt ætla ég auðvitað ekki að fjölyrða, en tilhugsunin er í það minnsta kosti ögn heillandi.

   en auðvitað eru til aðrir sem halda því fram að ónákvæmnin eigi ekki rætur sínar í málinu, heldur í heiminum. með orðum orðum, krumpurnar í teppinu eru tilkomnar vegna þess að gólfið er óslétt. það sem er átt við með slíku er að til séu ónákvæmir hlutir. hvernig nákvæmlega ónákvæmir hlutir ættu að vera er auðvitað ekki auðsagt, en, til dæmis, þá má ímynda sér hlut sem stendur fast við annan hlut (ég er ekki að tala um neitt óhversdagslegt, til að mynda, þá má bara ímynda sér handaband eða jafnvel þig og andrúmsloftið sem umlykur þig). segjum enn frekar að ég geti bent á tiltekin atóm, og spurt: er þetta atóm hluti þessa hlutar eða hins? nú, augljóslega, þá eru sum atóm sem hljóta að tilheyra öðrum hvorum hlutnum, en einhver atóm, sem eru á jaðri hlutanna, hvað segjum við um þau? hvorum hlutnum tilheyra þau? hvorugum? báðum? eða öðrum hvorum? ef slík atóm eru til staðar, þá er allavega annar hluturinn ónákvæmur hlutur. en bíddu nú við, þetta er ekki alveg svona einfalt, því auðvitað er þessi frásögn mín uppfull af orðum (hugtökum), og hvernig veit ég að það eru ekki þau sem ónákvæm? hlutur? jaðar? að standa þétt upp við eitthvað? að tilheyra? þetta eru auðvitað allt ónákvæm hugtök. jafnvel atóm er ekkert nema hugtak, eins og ég tala um það. hvernig veit ég hvort ónákvæmninn hafi ekki bara laumað sér bakdyra megin inn í þessa lýsingu?

   fyrirlesturinn fjallaði auðvitað eiginlega ekki um neitt af þessu, enda var hann öllu tæknilegri. mig langaði bara til þess að kynna þig, lesandi góður, fyrir tískunni hérna meginn . . . ég læt síðan þér eftir að dæma um gildi hennar (og auðvitað, ef þú vilt, heimspekinnar yfirleitt).

skoðanir:

23.10.05, Blogger Unknown sagði:

Er þetta poppið í heimspekinni í dag? Var ekki Platón með frummyndakenningunni að pæla í nákvæmlega sömu hlutum? Ef ég og þú hugsum um hest þá lítur hann ekki eins út í huganum en samt vitum við alveg hvað hestur er. Svo var einhver heimspekingur sem sagði "Guðinn sem gaf okkur tungumálið var fullur" og var með því að vísa til þess hversu ófullkomið tungumálið er og í leiðinni hversu ónákvæmt það er. Þetta er bara eins og fatatískan, það sem var í tísku dettur úr tísku og kemst aftur í tísku seinna.

 
24.10.05, Anonymous Anonymous sagði:

Hárgreiðsla Péturs Blöndal er háð veðri. Hann greiðir nefnilega yfir skallann en Ómar Ragnarsson var upphafsmaður þeirrar tísku fyrir nokkrum áratugum. Í roki sést greinilega í hálfmánann aftan á honum en í blíðviðri er hann "skallalaus".

 
25.10.05, Anonymous Anonymous sagði:

ésússs andri...krumpur á teppum. Í siðmenntuðum löndum er drukkinn bjór á föstudögum.

 

segðu þína skoðun

til baka