um raungildi regnhlífa

miðvikudagur, 12. október
í dag hélt áfram að rigna. og það var sko engin smá rigning. ég hef séð ýmsar gerðir af rigningu í gegnum tíðina, en aldrei neitt þessu líkt. þrátt fyrir alkunna þolinmæði mína í garð veðursins, þá var mér nóg boðið seinni part dags og ákvað að kaupa mér regnhlíf. auðvelt eins og það kann að virðast, þá var slíkt ekki létt verk, því svo virðist vera sem óþolinmæði allra annara hafi gert framboð regnhlífa hérna fráleitt. allavega, að lokum tókst mér þó að finna mér regnhlíf, og ekki slæma heldur: samanbrotin, þá er hún á stærð við farsíma, þannig--ef maður er á annað borð gefinn fyrir að geyma hluti í vösum--þá gæti hún passað í næstum sérhvern vasa. þegar hún er spennt, þá er er þvermál hennar hvorki meira né minna en 86 sentimetrar. og, eins og það sé ekki nóg, hún vegur ekki nema tæp hundrað grömm. í einu orði sagt, verkfræðiundur. og, það ótrúlegasta er, þessi kynja- og kostagripur rataði upp í hendur mínar fyrir ekki nema 7 pund og 99 pens.

   en það mikilfenglegasta við þessa regnhlíf er þó enn ósagt: þegar ég steig út úr búðinni og spennti upp þetta djásn, þá stytti upp samstundis og hefur ekki byrjað aftur. svo virðist vera sem þessi handhæga en burðuga regnhlíf hlífi manni ekki aðeins fyrir regninu, heldur stjórnar hún því líka.