pms: bók

laugardagur, 8. október

as i lay dying eftir william faulkner (1930)
því verður vart neitað, þetta er ein erfiðasta saga sem ég hef lesið. það er ekki það, að flétta sögunnar sé flókin, þvert á móti, hún er eins einföld og þær gerast. það sem gerir söguna erfiða er frásagnarformið sem faulkner velur henni: sérhver kafli hefur sinn sögumann (svona a, b, a, c, a, b, d, e, f, a, g, . . . form), sem segir framvindu sögunnar með eins konar innra eintali (eða straum meðvitundar, eins og slíkt er stundum kallað). sérhver persóna hefur sínar skoðanir á því sem fyrir ber (sem, eðlilega, eru stundum ekki samhljóða skoðunum annara persóna), og er því oft eins og sé verið að segja nokkrar mismunandi sögur. hver persóna hefur sinn eigin hugsunarhátt og talsmáta, og eru haldnar sínum grillum, sem gerir kaflaskiptin oft afar ruglandi. og auk þess, til þess að gera menn enn viltari, þá flakka kaflarnir talsvert fram og aftur í tíma, sumir þeirra skarast, á meðan aðrir segja forsögur.

   en einhvern veginn, á sannarlega undraverðan hátt, þá tekst faulkner þetta fullkomlega. árangurinn gerði erfiðið fullkomlega þess virði: eftir allt streðið, þá er niðurstaðan góð. ekki bara góð, heldur stórkostleg.