steinar og pund, og fet og tommur

sunnudagur, 2. október
eftir karate í dag þá rakst ég á skemmtilega vigt í búningsklefanum. þetta er ein af þessum gömlu, þar sem maður þarf að færa lítil lóð fram og til baka til þess finna réttu þyngdina. ég hef ekki séð svona vigt síðan ég var smástrákur og hvað þá notað svona að ráði, og þess vegna tók það mig svolítinn tíma að ná þessu alveg réttu. eftir puð og moj, tókst mér það þó nokkurn veginn að lokum, en þá tók við annað og öllu erfiðara vandamál: vigtin sagði mig vera tólf steina og þónokkur pund. þar sem ég er ágætlega alinn upp í metrakerfinu kom þetta sér ögn illa. ég veit vel að eitt pund er tæpt hálft kíló, en um steina veit ég afar lítið.

   til þess að auka enn á rugling minn þá var líka innbyggður hæðarmælir í viktina, sem ég komst auðvitað ekki hjá því að prófa líka. illu heilli, þá er þetta bara einn af þessum hlutum sem mér finnst ég alltaf knúinn til þess að prófa. hvað um það, hæðarmælingin var öllu auðveldari viðureignar en vigtunin, enda bara spurning um að standa undir mælitækinu og toga í það þar til það nam við kollinn á mér, rétt eins og skólahjúkrunarkonan gerði manni árlega í skóla. niðurstaðan var sex fet og sex tommur, sem er kannski ögn skárra en úr viktuninni, þar sem ég veit nokkurn veginn hvað hvort um sig þýðir.

   þegar ég les yfir það sem ég er búinn að skrifa núþegar, þá finnst mér ég hljóma ögn eins og forviða, hrokafullur og heimakær túristi úr vesturheimi, en það er ekki ætlunin. ég er alls ekki að gefa í skyn að þetta kerfi sé verra eða kjánalegra (eða betra eða gáfulegra) en metrakerfið, allt og sumt sem ég er að reyna að undirstrika er hið augljósa, að það er frábrugðið. hvort um sig er búið að skjóta rótum sínum í mismunandi samfélögum og festa sig í sessi vegna vana. rétt eins og þeir keyra vinstra meginn hérna, þá nota þeir hugtök sem steina og pund, og fet og tommur, og þeir komast fullkomlega upp með það innan samfélags síns vegna þess að allir gera það og eru orðnir vanir því. það er ekki fyrr en að einhver utanaðkomandi sem hefur vanist einhverju öðru kemur inn í kerfið að einhverjum fer að finnast þetta skrítið. og boðskapurinn með þessu öllu er þessi: eitthvað keimlíkt á við um sérhvert kerfi, munum það næst þegar við fordæmum eitthvað framandi.


og já, svona að lokum, hafi einhver verið að velta því fyrir sér, þá er eitt pund 0,45 kíló; einn steinn er fjórtán pund, eða 6,35 kíló; tomma er 2,54 sentimetrar; og fet er tólf tommur, eða 30,48 sentimetrar.