dyr og hurðir
föstudagur, 4. nóvemberí annars farsælli sögu breska heimsveldisins, þá virðist eitthvað hafa farið illþyrmilega úrskeiðis þegar kemur að dyrum og hurðum. sé munurinn á dyrum og hurðum ekki augljós, þá er rétt að skýra hann áður lengra er haldið: dyr er, öllu að jöfnu, gat á vegg, sem er gert í þeim tilgangi að fólk geti komist sitt hvoru megin við veginn án mikillar fyrirhafnar. hurð er hleri af einhverju tagi, sem er komið fyrir í dyrum til þess að loka þeim, en má, öllu að jöfnu, opna aftur án mikillar fyrirhafnar. mögulega hafa þeir gleymt sér í teinu, en allavega virðist fyrirhafnar-hlutinn hafi farið forgörðum hérna. ég hef velt þessu þónokkuð fyrir mér, og rannsakað þetta í þaula, og niðurstaðan er sú, að þessu klúðri megi skipa í þrjá flokka, sem ég kýs að nefna hér ungbarna-hurðir, tveggja-handa-hurðir, og tveggja-hurða-dyr . . . .
ungbarna-hurðir eru þannig smíðaðar, að hurðahúnninn er í hnéhæð, þrátt fyrir að hurðin (og dyrnar auðvitað) sé í eðlilegri stærð. auðvitað er rétt að benda á það, að ég er ekki smávaxinn, þannig að hnéhæð fyrir mér er auðvitað öllu hærri en margra annara, en engu að síður er hnéhæð mín tæpir fimmtíu sentimetrar. til þess að opna slíkar dyr, þá þarf fullorðið fólk að teygja sig og beygja, næstum alla leið niður á gólf.
ekki veit ég hvað hefur vakið fyrir þeim sem smíða svona lagað, en eina tilgátan sem mér kom til hugar er að dyrnar séu ætlaðar ungbörnum. nánari rannsóknir hafa þó sýnt mér fram á það, að svo getur tæplega verið, þar sem hurðir af þessu tagi eru oftar en ekki á stöðum þar sem ungbörn hafa takmarkað erindi.
tveggja-handa-hurðir eru þannig smíðaðar, að ómögulega má opna dyrnar sem þær loka án þess að nota báðar hendur. fyrir mig þá er slíkt afar hvimleitt, því af einhverjum ástæðum, þá er ég alltaf með eitthvað í höndunum (og það var eiginlega ekki fyrr en ég fór að rekast á þessar hurðir að ég áttaði mig á þeirri staðreynd). fyrir vikið, þá er ég oft tíðum líkastur kripplingi, þegar ég reyni að nota axlir eða fætur til þess bæta upp fyrir uppteknar hendur, til þess að ljúka upp slíkum dyrum. kannski er ég eini maðurinn í gervöllu heimsveldinu sem er alltaf með eitthvað í höndunum--en brjóstvitið segir mér þó að svo sé auðvitað ekki. mér finnst líklegt að sérhvert mannsbarn í heimsveldinu hafi leikið krippling gagnvart slíkum hurðum einhverju sinni.
tveggja-hurða-dyr eru þannig úr garði gerðar, að þegar maður hefur lokið upp einni, þá tekur við manni örlítið rými, sem er ekki meira en fermeter að flatarmáli, þar sem önnur dyr (og hurð) bíður manns í ofvæni. nú, strangt til tekið, þá ræðir um tvær dyr, en engu að síður, þá finnst mér réttast að tala um þetta sem einar dyr, þar sem þetta fyrirbæri hefur sama tilgang og einar dyr, nefnilega þann að opna fólki leið milli tveggja hliða tiltekins veggs (t.d. milli herbeggja), þrátt fyrir hvimleiða viðbyggingu (þetta er örlítið eins og svona loftlás í vísindaskáldsögum og -bíómyndum).
dyr af þessu tagi má einkum finna á klósetum almenningsstaða og búningsklefum íþróttabygginga. þú getur kannski spurt þig núna, hvað ertu að tuða, hvert er vandamálið? vandamálið er það, að önnur hurðin, þegar viðkomandi dyr er lokið upp, króar mann af í örlitla rýminu, þannig að til þess að komast út um þær dyr, þá verður maður að halda hinni opni á meðan, sem er oft ekki auðvelt verk. ólíkt hinum klúðrunum, þá er þetta klúður gert af ástæðu: þegnar heimsveldisins eru spéhræddir (sem tengist öðru fyrirbæri), og með því að hafa tvær hurðir fyrir dyrunum, þá eru minni líkur að inn sjáist. en klúðrið er auðvitað klúður, því til þess að komast í gegnum dyrnar, þá þarf náttúrlega að halda báðum hurðunum upp á gátt.
en nú, eins og ekki sé nóg á þegna heimsveldisins lagt, þá útiloka fyrrgreind klúður auðvitað ekki hvor önnur, því það fyrirfinnast dyr sem eru sameina allt í senn, ungbarna-hurðir, tveggja-handa-hurðir, og tveggja-hurða-dyr.
það er sannarlega merkilegt, ef maður veltir því fyrir sér, hvað við, íslendingar, guðsvoluð þjóð á hjara veraldar, í eitt-þúsund ára eymd okkar, höfum, þrátt fyrir allt og allt, komist farsællega hjá mistökum á borð við þessi.
skoðanir:
segðu þína skoðun
til baka