hliðarblogg

sunnudagur, 27. apríl
ef til vill hafa glöggir lesendur rekið augun í hlekkinn hér til hægri sem stafar „the gorging lodge“. tja, ef ekki, þá er tími til kominn ...

þessi síða er eins konar hliðarblogg sem við sambýlisfólkið í skotlandi höldum úti saman. eins og nafnið gefur kannski til kynna, þá er þetta blogg helgað mat og matargerð. en já, það er nefnilega einmitt ástríða okkar fyrir mat sem sameinar okkur.

hvað um það, mér þótti bara rétt að benda á þetta, fyrir þá sem ekki höfðu séð þetta áður, og útskýra fyrir ykkur hinum. gott fólk, leyfið mér að kynna: the gorging lodge.

cvi

föstudagur, 25. apríl
þar sem ég gleymdi mér á ferðalögum mínum síðustu viku, þá er bara réttlátt að ég fái að lauma inn tveimur myndum þessa vikuna. þessi mynd er einnig úr títtumræddum minnamurraskógi.

cv

fimmtudagur, 24. apríl
afsakið þögnina: ég er búinn að vera á hinum svokallaða faraldsfæti síðustu dagana. góðu heilli, þá er ég samt nú kominn enn á ný til melbourne. það hefur eitt og annað í för með sér og meðal annars fleirri myndir vikunar ...

eins og sú síðasta, þá er þessi mynd einnig úr minnamurraskógi. myndin er af æri undarlegum trjáberki. þrátt fyrir allt, þá segja þeir mér að þetta mynstur sé sjálfspottið. ætli það þýði samt eitthvað?

civ

laugardagur, 12. apríl
þessi mynd er úr hinum svokallaða minnamurra regnskógi. regnskógar eru afar merkileg fyrirbæri. einmitt, eiginlega mun merkilegri en mig óraði fyrir áður en ég fann sjálfan mig í miðjum slíkum. það er einkum tvennt sem vakti ómælda undrun mína og er þess vegna vert að segja frá. annars vegar, þvert á allar mínar fyrri hugmyndir, þá rignir ekki stöðugt í regnskógum. já, eiginlega mun sjaldnar en ekki. og hins vegar, sem ekki kom mér minna á óvart, þá er ögn kalt í regnskógum. í öllu falli mun kaldara en utan þeirra. já, við það eitt að stíga inn fyrir jaðarinn, þá lækkaði hitinn um allavega tíu gráður.

já, svona veit maður víst lítið þegar maður elst upp innan um jökla, í stöðugri lægðarmiðju og umkringdur kuldaskilum á sérhvern kant.

ciii

laugardagur, 5. apríl
í sidney má finna feiknarstóra og afar vel staðsetta styttu af kerlingu einni sem þegnum breska heimsveldisins þykir æri mikið til koma. já, meira en sjálfrar díönnu prisessu og margrétar thatcher til samans. sagt er að umrædd kerling hafi haft til að bera sérhverja dyggð sem þeir telja góða konu skuli prýða. í hugum heimsborgaranna er hún sjálf holdgerving kvenlegs þokka og fyrirmynd fegurðar. já, gott fólk, þetta er sko engin önnur en viktoría drottning.



ég verð samt að viðurkenna, sem afdaladurgur frá guðsvoluðum útnára á hjara veraldrar sem skortir allan fagurfræðilegan þroska og skynbragð, að ásjóna þessarar kerlingar minnir mig einna helst á teikninguna af grýlu í vísnabók iðunnar sem hræddi næstum úr mér líftóruna barnungum.