föstudagur, 29. febrúardagurinn í dag er merkilegur fyrir þónokkrar sakir. einkum þó, þá er 29. febrúar merkilegur fyrir það að bera aðeins að fjórða hvert ár. og ekki einu sinni það, því á fjögurhundruð ára fresti, þá líða átta ár á milli þessa dags. en af hverju er það merkilegt? það er merkilegt vegna þess að þessi dagur minnir okkur á þá staðreynd að allar okkar tilraunir til þess að koma kerfi á raunveruleikann eru dæmdar til þess að mistakast. tímatalið er auðvitað bara hentugt dæmi, þar sem dagurinn í dag er aðeins snjöll tilraun til þess að bjarga gömlu og grónu kerfi frá glötun: fjórða hvert ár, þá er einum degi bætt við, að undanskildu fjögurhundraðasta hverju ári, því þá yrði leiðréttingin of mikil. og samt, þrátt fyrir þessar tilraunir, þá er það ekki alveg nóg, eftir nokkur þúsund ár, þá verður skekkjan orðin svo mikil að við neyðumst til þess að fitla ögn við kerfið til þess að leiðrétta á ný ...
og hvað? nú, þannig er þessu háttað með allar okkar kenningar: þær eru ekkert nema tilraunir til þess að koma einhvers konar kerfi á raunveruleika sem reynist alltaf einu skrefi á undan. auðvitað, sé vel að verki staðið, sem vissulega er ekki alltaf raunin, þá ættu kenningar okkar að færast nær og nær sannleikanum. en hvort þær nái einhvern tímann í skottið á honum, já, þar er efinn. og þetta, gott fólk, er ástæða þess að dagurinn í dag er merkilegur: einmitt, hann er kærkomin áminning einhvers sem við ættum aldrei að gleyma.
nóg um það, ég vil ekki að þetta blogg verði að enn einu kjaftablogginu. það verður seint sagt, „nei, vanþörf er sjaldnast á því“. einmitt, myndir, það er það sem þetta snýst allt um hérna. myndir vikunnar eru aftur þrjár. allar frá melbourne. og allar úr sitthvorri áttinni.
á meðan fyrri tvær myndirnar eru aðeins einskonar áferðarmyndir, þá er sú þriðja af pípulögnum melbourne. mér þótti þetta svo skemmtileg útfærlsa að ég gat bara alls ekki staðist að taka þessa mynd.
xcvii (i, ii og iii)
föstudagur, 22. febrúar... og melbourne leggst betur í mig með hverjum deginum. já, eftir að hafa búið í misstórum þorpum allt mitt líf, þá eru kostir stórborganna stöðugt að renna betur upp fyrir mér. þó það sé ýmislegt til í hinu fornkveðna, að við vitum varla hvað átt höfum fyrr en misst höfum, þá er ívið meira til í því, að við vitum alls ekkert fyrr en við átt höfum.
en hvað um það. myndir vikunnar eru ekki færri en þrjár og það vill svo skemmtilega til að þær eru allar frá títtumræddri borg. eins og gengur og gerist, þá eru þessar myndir allar úr sitthvori áttinni. ég held samt að þær útskýri sig nokkurn veginn alveg sjálfar, ég læt því þennan kjaftavaðal nema staðar hér. takk fyrir að lesa.
xcvi
laugardagur, 16. febrúarég er nokkuð viss um að þið hélduð að ég væri alveg búinn að gleyma ykkur. enn ein vikan að kvöldi sínu kominn og engin mynd sjáanleg. en nei, svona er ég lúmskur ...
mynd vikunnar er frá melbourne. í melbourne er eitt og annað og sumt sem gerir borgina að því sem hún annars er. eitt af því eru ögn ólögulegar en engu að síður heillandi rafmagnslínur í loftinu. mynd vikunnar er einmitt ef slíku víravirki.
um fjarlæga staði
fimmtudagur, 14. febrúartil þess að gera langa sögu styttri, þá er ég samsagt heill á húfi í ástralíu. af því takmarkaða sem ég hef séð hér og annars upplifað, þá finn ég mig knúinn til þess að fullyrða að melbourne sé ansi viðkunnalegur staður. eiginlega er ég tilbúinn til þess að ganga ögn lengra og fullyrða að melbourne sé með allra huggulegustu borgum sem hafa rekið á fjörur mínar.
ef svo kynni að vera að einhverjum langi til þess að senda mér póstkort eða lengri línur, þá er póstfangið mitt „8/29 hotham street, 3002 east melbourne, melbourne, victoria, australia“. (að sjálfsögðu tek ég einnig við ímeilum, en ég spyr, hvar er nú sjarminn við það?) auk þess þá er ég hérna með nýmóðins símstöð sem tekur á móti símtölum, textaskilaboðum og ég veit ekki hverju ekki. til þess að tengjast umræddu undraapparati, þá má stimpla inn númerið 00-61-413411203 í þartilgerð viðtæki.
þar til næst, góðar stundir.
um mögulega heima
sunnudagur, 3. febrúarþað tekur mig sárt að tilkynna tiltekinn heimsendi. örvæntið samt ekki, þetta eru aðeins endalok
mögulegs heims. eimitt það, vegna illskiljanlegra tiktúra vefhýsils míns, þá get ég ekki lengur haldið úti vefsíðunni „possible-world.net“. en við grátum það ekki, farið hefur víst féið öllu betra ...
þetta er samt engin ástæða til þess að fara í keng, ég mun að sjálfsögðu halda áfram útsendingum mínum héðan. og ekki aðeins það, næsta útspil verður frá ekki ómerkari stað en ástralíu. ímyndið ykkur það!
xcv
föstudagur, 1. febrúarhafið hefur lengi heillað jafnt sem hrætt. á sinn ógnarstóra hátt er það okkur áminning um stöðu okkar og smæð í veröldinni. ekki aðeins það, hafið hefur í gegnum tíðirnar haft vald yfir lífi og dauða, markað skilin, ef svo má að orði komast, á milli himnaríkis og helvítis. en hafið er samt ekki alvont, því það færir okkur einnig líf í skiptum fyrir þau sem það hefur tekið frá okkur: við værum ekki án hafsins. og auk þess, sem er öllu mikilvægara, þá býr hafið yfir ómældri fegurð sem hefur fangað huga mannanna og innblásið frá örófi alda. já, gæti maður sín ekki, þá getur maður hæglega gleymt sér starandi á hafið lífið á enda.
mynd vikunnar er einnig frá vesturströnd skotlands. það er engin tilviljun að myndin sýni einmitt ungan mann fastan í greipum hafsins.
eftir tvo daga held ég svo ferð minni áfram til ástralíu. góðu eða illu heilli, þá mun ég að sjálfsögðu reyna að halda áfram myndasögu minni þaðan. þar til þá, ta-dah.