mynd vikunnar, xix

föstudagur, 24. febrúar
þessi mynd er af horni north street og castle street. ef ég man rétt (sem ég geri auðvitað), þá setti ég aðra afar svipaða mynd hérna í haust (sjá mynd v). ég afsaka endurtekninguna, en það er bara eitthvað við þetta götuhorn.



(og enn og aftur vil ég bölva og biðjast afsökunar á ljósmyndameðhöndlun blogger-sins.)

tónlistarlífið í st. andrews, annar hluti

miðvikudagur, 22. febrúar
það er aldrei neitt ekkert öðru vísi en það er. listaspírurnar elskulegu í nylon blessuðu litla þorpið mitt í gærkvöldi með hákúltúr af fínasta tagi. þar sem ég hef hvorki vit né skynbragð á tónlist, þá reyni ég ekki að mynda mér neinar skoðanir um svona lagað; en, þrátt fyrir það, þá get ég bara ekki hjá því komist að þessu sinni. þetta var nefnilega allt saman svo voða smekklegt og fínt: þær sungu svo afar viðkunnalega, þær dönsuðu eins og balletmærir, og svo voru þær með alls kyns ljósagang, reyk og huggulegheit. þetta var bara eins og í eurovision. já, ímyndið ykkur þetta bara!

lífið er of stutt fyrir kaldhæðni

þriðjudagur, 21. febrúar
þegar ég var í smábænum falkland á laugardaginn, þá lenti ég í þeim aðstæðum að komst ekki hjá því að hlera samræður af næsta borði. aðstæður af þessu tagi þekkja trúlega flestir, þetta er kannski til marks um dónaskap, en engu að síður eitthvað sem maður fær ekki á neinn hátt við ráðið. hvað um það, ég byrja söguna þar sem hún hefst:

   eins og dygga lesendur rekur kannski minni til þá fór ég í ferðalag um helgina. eins og áður hefur komið fram, þá ferðinni var heitið á lomond hæðir. smábærinn falkland, sem er einnig þekktur sem best varðveitta þorp skotlands, stendur einmitt við rætur þessara tignarlegu hæða, og var þess vegna sjálfsagður upphafs- og endastaður títtumtalaðrar fjallgöngu. falkland er hinn heimilislegasti bær, þar er sæt lítil kirkja, sæt lítið torg, og litlu töffarnir sem gáfu okkur fingurna á breskan máta voru líka bara sætir á sinn hátt.

   hvað um það, þegar við komum niður af fjallinu, þá settumst við inn á lítinn og notalegan veitingastað. um veitingastaðinn er svosem lítið nema gott að segja. á einu borði sátu fjórir arabarkarlar og á öðru sátu fjórar arabakonur, sem augljóslega voru hvert öðru vel kunnug. mér fannst það ögn skrítið að þau skildu ekki öll sitja saman, þar sem þau töluðu hvert við annað stöðugt, en hver er ég til þess að dæma siði annara. eflaust fannst þeim það ekki síður furðulegt að sjá þrjá unga stráka drulluga upp að hnjám sitja saman og tala um ófullkomnar skilgreiningar og samsemd milli mögulegra heima en ekki stelpur og fótbolta.

   á öðru borði sátu settleg hjón, á að giska, um sextugt, ásamt lítilli stelpu á fermingaraldri. ég veiti þessu fólki ekki framan af neina sérstaka athyggli, en allt í einu sagði konan við stelpuna: þú átt ekki að grínast, lífið er og stutt fyrir kaldhæðni. þessi staðhæfing--að lífið væri of stutt fyrir kaldhæni--sló bæði mig og andreas gjörsamlega út af laginu, þannig við misstum bæði andlitin og þráðinn.

   nú veit ég ekki í hvaða samhengi hún sagði þetta, þetta var eiginlega það eina af orðum hennar sem ég náði, en þessi orð settu að mér kuldahroll. mér fannst eðlilegast að spyrja konuna hvað hún ætti eiginlega við. auðvitað gerði ég það ekki, en kannski hefði ég betur gert það, því þessi orð eru búin að dvelja með mér síðan. þegar öllu er á botninn hvolft, þá er kaldhæðni mitt annað mál, það eru vart til þær samræður sem ég nota ekki einhvern vott af kaldhæni. ég gæti trúlega ekki talað við annað fólk yfirleitt ef ég myndi ekki bregða fyrir mig kaldhæni. og öllu mikilvægar, ég gæti varla skilið heim minn án þess að túlka hann endrum og eins á kaldhæðinn hátt--við gerum það jú öll. með öðrum orðum, kaldhæðni er óaðskiljanlegur þáttur í tilveru minni. og ef lífið er of stutt fyrir kaldhæðni, fyrir hvað er það þá eiginlega nógu langt?

   ég er ekki enn kominn niður á neina niðurstöðu; meira um þetta síðar.

tónlistarlífið í st. andrews

sunnudagur, 19. febrúar
þá er það komið á hreint: fjöllistahópurinn nylon er á leiðinni til st. andrews! þessar ungu og geðþekku listakonur koma til með að flytja list sína hérna á þriðjudaginn næstkomandi. ég er ekki vel að mér í tónlist og öðrum hákúltúr af þessu tagi, en auðvitað get ég ekki látið svona tækifæri fram hjá mér fara. þær eru nú einu sinni íslenskar.

lomond hæðir

laugadagur, 18. febrúar
eins og áður hefur fram komið, þá lifa heimspekingar afar spennandi og jafnframt hættulegu lífi. til þess að gera ekki út af við okkur þá lögðumst við félagarnir, andreas, ralf og ég, í fjallgöngu í dag. við lögðum leið okkar á lomond hæðir, sem er ekkert nema hæðsta fjallið í sýslunni okkar, fife. lomond hæðir eru reyndar tvö fjöll, eystri og vestri lomond hæð, en við fórum létt með það.

   hér að neðan smá sjá ralf og andreas virða fyrir sér útsýnið af vestri lomond hæð. þess er rétt að geta, eins og þónokkrir til þekkja, að þetta útsýni er með besta móti miðað við flestar aðrar fjallgöngur mínar hingað til.

klukk?

föstudagur, 17. febrúar
í dag var ég klukkaður. ég veit ekki alveg hvað slíkt merkir. eða eiginlega jú, ég veit alveg hvað slíkt merkir í tilteknum kringumstæðum, bara ekki þessum. það væri mér því gagnlegt ef einhver gæti útskýrt fyrir mér hvað, ef eitthvað, maður á að gera klukkaður.

   það er ekki það að mér líði sérlega illa svona klukkaður, þvert á móti, mér finnst það eiginlega bara svolítið huggulegt. en samt, svona þar sem ég er alltaf forvitinn: svar óskast, takk.

mynd vikunnar, xviii

þriðjudagur, 14. febrúar
eins og flestar aðrar myndir sem ég hef tekið, þá er þessi líka svolítið hugtak . . .

mynd vikunnar, xvii

laugadagur, 10. febrúar
úps, ég næstum gleymdi mér. mynd vikunnar er önnur brúarmynd frá firth of forth. sama hvað öðrum kann að finnast, það er eitthvað við brýr.



(og enn og aftur vil ég nota tækifærið til þess að bölva meðhöndlun blogger-ins á ljósmyndum.)

nýtt heimili

fimmtudagur, 9. febrúar
þá er það komið á víst frágengið: nýtt heimili. það verður reyndar ekki að veruleika fyrr en næsta haust, sem virðist enn óratíma í burtu, en engu að síður samt. húsið er númer 86 við north street, sem er reyndar sama gata og ég bý við núþegar, en slíkt er ekki sérlega ólíklegt ef haft er í huga að þetta er krummaskuð.

   hér að neðan má, ef vel er að gáð, koma auga á væntanlega íbúa (frá vinstri, ole, ralf, ykkar undirritaðan, og andreas) standandi utan við dyrnar á húsi númer 86 við north street.

heim á ný

þriðjudagur, 7. febrúar
hananú! eftir örlítið hliðarspor er ég kominn heim á ný. furðu fátt hefur breyst síðan ég fór héðan síðast. eini munurinn er sá sami og áður--þökk sé kaffinu á kaffitári vil ég meina--að kaffið hérna er farið að bragðast eins og óþverri, en--góðu eða illu heilli--þá veit ég að það verður farið að bragðast alveg ágætlega eftir tvær vikur.

   eins og mér kann að líða vel á íslandi, þá er indælt að koma hingað aftur. það er ekki laust við að ég hafi saknað fólksins míns hérna, og--eins hjákátlega það má hljóma--þá er þetta krummaskuð búið að öðlast sinn sess í hjarta mínu.