pms: bók

miðvikudagur, 30. nóvember

the brooklyn follies eftir paul auster (2005)
oft hef ég verið æri nálægt því, en aldrei áður hef ég keypt bók daginn sem hún er gefin út. ég er glaður að það hafi ekki verið ómerkari höfundur en paul auster sem hlaut þann heiður. til að mynda hefði ég getað fengið þá flugu í hausinn að gaman væri að kaupa harry potter daginn sem hann kæmi út (kannski er það það, ég hef ekki enn lesið hann), og þá hefði ég eflaust þurft að bíða í röð svo dögum eða jafnvel vikum skipti. en ekki herra paul auster, nei aldeilis ekki. ég fór í bókabúðina rétt fyrir lokun, og þegar ég spurðist fyrir um bókina þá þurfti bóksölustelpan að spyrja mig hvernig auster væri stafað til þess að fletta því upp í tölvunni, og þegar hún loksins fann bókina fyrir mig, þá kom það upp úr dúrnum að öllum öðrum í st. andrews stóð á sama, því enginn var búinn að kaupa eitt af þremur innkeyptum eintökum. mórall sögunar: stundum er gott að hafa sérstæðan smekk.

   en allavega, the brooklyn follies er afar heillandi saga um betrun. eiginlega svo heillandi að það er ekki annað hægt en að fyllast væntinga um manneðlið. kannski ekki besta paul auster bók allra tíma, en verðug lesning. auðvitað er ég núna að tala um smekksatriði, en þetta er ein þeirra bóka sem ég hefði alls ekki kært mig um að missa af.

gamall vani

mánudagur, 28. nóvember

um daginn hræddist líftóran næstum úr mér. sumir gætu nú spurt, af hverju? ástæðan var sú að ég keyrði bíl. eflaust hugsa nú einhverjir, slíkt er hvorki mikið afrek né sérlega ógnvekjandi. satt, nema fyrir það eitt að þeir aka vinstra meginn hérna. ég er óttalegur bögubósi í umferðinni, en að aka hægra meginn er mér samt hægðarleikur ef maður er á annað borð orðinn vanur því. svo mikill hægðarleikur að allt annað er vonlaust. allan tímann sem ég ók þá varð ég stöðugt að minna sjálfan mig á það að hvar ég átti að vera, því af gömlum vana reyndi ég ósjálfrátt að sveigja til hægri . . . aftur og aftur og aftur. í hvert sinn sem ég mætti bíl, þá þurfti ég að taka á honum stóra mínum til þess að halda mig vinsta meginn við hann. allir þessir hlutir sem eru yfirleitt auðveldu hlutirnir í bílaleiknum voru allt í einu orðnir hinir ómögulegu: gatnamót, hringtorg, bílastæði og framúrtökur (þ.e. að láta taka fram úr sér, ég hefði aldrei þorað hinu). þvílíkt martröð!

   fyrir utan ítrekaða árekstra hægri handar minnar og bílhurðarinnar þegar ég fálmaði örvæntingarfullur eftir gírstönginni (sem er vinstra meginn við mann í breskum bílum), þá gekk bíltúrinn slysalaust fyrir sig. stöku sinnum missti ég út úr mér stunu, óhljóð eða örlítið bölv, en að öðru leiti þá tókst mér furðu vel að dylja ugg minn samferðamönnum mínum.

   að breyta út af gömlum vana er ekki svo ólikt heimsóknum mínum til tannlæknisins, hvort tveggja gerir næstum út af við mig. öllu að jöfnu er ég ekki þeirrar gerðar sem leggur sig um hábjartan dag, en eftir þetta--eins og tannlækninn--þá varð ég bara að halla mér.

slíkar eru hversdagsraunir heimspekings.

pms: tónlist

miðvikudagur, 23. nóvember

arcade fire ep eftir arcade fire (2003)
funeral eftir arcade fire var fyrir árið 2004 það sem you forgot it in people eftir broken social scene var fyrir árið 2003: athyglisverðasta plata ársins. vel af sér vikið fyrir annað eins dreyfbýli og kanada að geta af sér svona hljómsveitir (gleymum ekki heldur godspeed you! black emperor, a silver mt. zion, do say make think, fly pan am, wolf parade, herr l. cohen o.s.frv. o.s.frv.). allavega, eðs svo segir sagan, eftir velgegni funeral þá ákváð útgáfufyrirtæki arcade fire, merge, að endurútgefa eiginlega frumraun sveitarinnar, sem er þessi sjö laga smáplata.

   eftir aðra eins plötu og funeral, þá var vegna forvitni frekar en nokkurs annars sem ég ákvað að kaupa þessa plötu. þessi plata er alls ekki slæm. hún er í alla staði áhugaverð og hún inniheldur meira að segja eitt lag sem er í flokki með allra bestu lögum funeral. en að öðru leyti, þá er þetta ekki góð vísbending þess sem seinna kom.

pms: bók

þriðjudagur, 22. nóvember

norwegian wood eftir haruki murakami (1987)
þetta er eðlilegasta saga murakamis sem ég hef lesið. það mætti jafnvel ganga svo langt að segja að norwegian wood sé bara ástarsaga. en ég ætla ekki að gera það. þrátt fyrir að þessi saga sé laus við alla dulúð sem einkennir aðrar sögur murakamis (eða frumspeki eins og gagnrýnendur stundum segja--mér finnst það alltaf jafn sniðugt þegar fólk notar heimspekileg hugtök í röngu samhengi . . . en hvað um það), þá er hún samt sem áður ofboðslega heillandi. murakami er einstakur sögumaður, og jafnvel þó hann sé aðeins að segja ástarsögu (sem er auðvitað afrek eitt og sér, en samt eitthvað sem hefur verið gert ótal sinnum áður), þá tekst honum að gera það á undraverðan hátt. þessi saga er alveg einsök saga. braahvó!

mynd vikunnar, x

mánudagur, 21. nóvember


þessi mynd var tekin í st. andrews.

pms: kvikmynd

sunnudagur, 20. nóvember

citizen kane í leikstjórn orson welles (1941)
hananú, það þýðir ekkert að fara í felur með það, citizen kane er besta mynd sem ég hef nokkurn tímann séð. það er ekkert meira um það að segja.

pms: kvikmynd

fimmtudagur, 17. nóvember

thx 1138 í leikstjórn george lucas (1971)
af einhverjum ástæðum, þá hefur lýsingin skandinavísku rökfræðingarnir verið fest við mig og tvo vini mína hérna, ole og andreas (ástæðan er reyndar ágæt og ekki með öllu óskynsamleg). allavega, við, skandinavísku rökfræðingarnir þrír, horfðum saman á vídeó í gær, og fyrir valinu var myndin thx 1138, sem einn okkar, andreas, gaf svo góð meðmæli að við hinir tveir gátum auðvitað ekki annað en samþykkt.

   ég er afar undrandi, því svo virðist vera, eftir allt saman, að george lucas hafi bæði verið leikstjóri og handritshöfundur afar góðrar myndar. vel gert. það er synd að maðurinn hafi ekki gert neitt í nánd við þetta aftur.

pms: kvikmynd

miðvikudagur, 16. nóvember

broken flowers í leikstjórn jim jarmusch (2005)
í st. andrews er eitt örlítið bíó (þ.e. hér er bara eitt bíó, og það er örlítið, en ekki eitt örlítið og einhver ögn stærri). öllu að jöfnu er aldrei neitt áhugavert í boði, og þess vegna hef ég ekki lagt það á mig að venja ferðir mínar þangað. í þessari viku varð þó þar breyting á, þar sem broken flowers var til sýningar.

   þar sem bæði jim jarmusch er einn af mínum eftirlætis leikstjórum og bill murray einn af mínum eftirlætis leikurum, þá var eftirvæntingin sem bærðist í brjósti mér ekki lítil. ólíkt eftirvæntingunni þá voru vonbrigði mín örsmá: broken flowers er trúlega ekki allra, en hún er klárlega mín.

mynd vikunnar, ix

sunnudagur, 13. nóvember


þessi mynd er frá eyjunni raasay, þar sem ég var fyrir um mánuði. handan við sundið er eyjan skye.

pms: bók

föstudagur, 11. nóvember

the discovery of heaven eftir harry mulisch (1992)
það er orðið langt síðan ég hef lesið svona hræðilega langa bók. ástæðan er sú að ég er haldinn fælni þegar kemur að löngum bókum. langar bækur hræða mig vegna þess að það er ekki lítil skuldbinding að eyða nokkrum vikum með sömu bókinni. til þess að slík skuldbinding sé þess virði, þá verður bókin einfaldlega að vera góð. og vandamálið við bækur (eins og svo margt annað í lífinu) er að maður veit ekki slíkt fyrr en maður er búinn að lesa bókina. og auk þess, til þess að réttlæta ugg minn og ótta enn frekar, þá hef ég komið eiginlega undantekningarlaust illa út úr löngum bókum í gegnum tíðina. en hvað um það, þessi bók fékk bestu meðmæli frá áreiðanlegum aðilum, þannig ég tók áhættuna . . . .

   áður en byrjaði að lesa bókina, þá gerði ég þá reginvitleysu að sjá myndina. ekki misskilja samt, myndin, sem er leikstýrð af jeroen krabbé og hefur ekki ómerkari leikara en stephen fry í aðalhlutverki, er mjög góð mynd (þetta var ein af sunnudagskvöldsmyndum rúv). allt og sumt sem ég á við er að myndin rændi mig hinu óvænta, þar sem ég var náttúrulega með söguþráðinn á takteininum (þatta kemur mér alltaf jafn mikið á óvart þegar þetta orð veltur út úr mér) allan tímann meðan ég las bókina.

   hefði myndin ekki rænt mig hinu óvænta, þá hefði þessi bók verið næstum fullkominn fyrir mér. og þrátt fyrir að vera laus við allt hið óvænta, þá gat ég ekki annað en felt hug til hennar. núna hljóma ég eins og sirrý með fólkinu (þessi á skjá einum), en skítt með það, þetta er trúlega ein fallegasta saga sem ég hef lesið. á einhvern undraverðan hátt tekst harry mulisch að kryfja manneðlið inn að kviku (sem er ekki létt verk). ekki veit ég hvort fælni mín hafi rénað nokkuð, en þetta var allavega ein af þessum áhættum sem ég er glaður að ég hafi tekið. ég get ekki annað en mælt með þessari bók, hún lét mig ekki ósnortinn (eins og nokkur bók geri það yfirleitt).

mynd vikunnar, viii

þriðjudagur, 8. nóvember


ókei, ég er kannski að svindla smá núna, þar sem þessi mynd er ekki frá st. andrews. en engu að síður, þá er þessi mynd framkölluð hérna, og það hlýtur að gilda eitthvað. allavega, þessi mynd er af reyðarfirði, síðan í september--hún fylgdi mér bara hingað á hálfátekini filmu . . . .

pms: kvikmynd

sunnudagur, 6. nóvember

¿qué he hecho yo para merecer esto!! í leikstjórn pedro almodóvar (1984)
bókasafnið í st. andrews er trúlega besta vídeóleiga í gervöllum heiminum. fyrir því eru tvær ástæður; önnur er frekar persónuleg, hin öllu almennari: í fyrsta lagi, og þetta er persónulega ástæðan, þá, þó myndsafnið sé ekki mjög stórt, eru eiginlega bara góðar myndir þarna. og í öðru lagi, og þetta er almenna ástæðan, þá kostar það ekki krónu (eða pund) að leigja sér mynd. (hananú, ég er augljóslega búinn að iðka heimspekina af aðeins of mikilli ástríðu síðustu daga, ég er farinn að færa rök fyrir ómerkilegustu hlutum.) en nú, þar sem ég er hræðilega lélegur í sjónvarpinu og oft uppteknari við aðra hluti, þá get ég ekki nýtt mér þessa gullnámu eins og ég gjarnan vildi. en engu að síður, þá er ég búinn að horfa á heila mynd á viku síðustu þrjár vikurnar . . . .

   myndin sem ég valdi þessa vikuna var ¿qué he hecho yo para merecer esto!! eftir pedro almodóvar. nú pedro almodóvar er einn af mínum uppáhalds leikstjórum, og þess vegna var það auðvelt val fyrir mig þessa vikuna þegar ég sá þessa mynd í hillunni. ¿qué he hecho yo para merecer esto!! er nefnilega ein af myndum almodóvar sem ég hef aldrei séð, og þess vegna var það ekki alveg laust við alla spennu þegar ég horfði á hana. allavega, myndin var ofboðslega skemmtileg: eiginlega ekta almodóvar mynd, með öllu því öllu sem slíku fylgir.

dyr og hurðir

föstudagur, 4. nóvember
í annars farsælli sögu breska heimsveldisins, þá virðist eitthvað hafa farið illþyrmilega úrskeiðis þegar kemur að dyrum og hurðum. sé munurinn á dyrum og hurðum ekki augljós, þá er rétt að skýra hann áður lengra er haldið: dyr er, öllu að jöfnu, gat á vegg, sem er gert í þeim tilgangi að fólk geti komist sitt hvoru megin við veginn án mikillar fyrirhafnar. hurð er hleri af einhverju tagi, sem er komið fyrir í dyrum til þess að loka þeim, en má, öllu að jöfnu, opna aftur án mikillar fyrirhafnar. mögulega hafa þeir gleymt sér í teinu, en allavega virðist fyrirhafnar-hlutinn hafi farið forgörðum hérna. ég hef velt þessu þónokkuð fyrir mér, og rannsakað þetta í þaula, og niðurstaðan er sú, að þessu klúðri megi skipa í þrjá flokka, sem ég kýs að nefna hér ungbarna-hurðir, tveggja-handa-hurðir, og tveggja-hurða-dyr . . . .

ungbarna-hurðir eru þannig smíðaðar, að hurðahúnninn er í hnéhæð, þrátt fyrir að hurðin (og dyrnar auðvitað) sé í eðlilegri stærð. auðvitað er rétt að benda á það, að ég er ekki smávaxinn, þannig að hnéhæð fyrir mér er auðvitað öllu hærri en margra annara, en engu að síður er hnéhæð mín tæpir fimmtíu sentimetrar. til þess að opna slíkar dyr, þá þarf fullorðið fólk að teygja sig og beygja, næstum alla leið niður á gólf.
   ekki veit ég hvað hefur vakið fyrir þeim sem smíða svona lagað, en eina tilgátan sem mér kom til hugar er að dyrnar séu ætlaðar ungbörnum. nánari rannsóknir hafa þó sýnt mér fram á það, að svo getur tæplega verið, þar sem hurðir af þessu tagi eru oftar en ekki á stöðum þar sem ungbörn hafa takmarkað erindi.

tveggja-handa-hurðir eru þannig smíðaðar, að ómögulega má opna dyrnar sem þær loka án þess að nota báðar hendur. fyrir mig þá er slíkt afar hvimleitt, því af einhverjum ástæðum, þá er ég alltaf með eitthvað í höndunum (og það var eiginlega ekki fyrr en ég fór að rekast á þessar hurðir að ég áttaði mig á þeirri staðreynd). fyrir vikið, þá er ég oft tíðum líkastur kripplingi, þegar ég reyni að nota axlir eða fætur til þess bæta upp fyrir uppteknar hendur, til þess að ljúka upp slíkum dyrum. kannski er ég eini maðurinn í gervöllu heimsveldinu sem er alltaf með eitthvað í höndunum--en brjóstvitið segir mér þó að svo sé auðvitað ekki. mér finnst líklegt að sérhvert mannsbarn í heimsveldinu hafi leikið krippling gagnvart slíkum hurðum einhverju sinni.

tveggja-hurða-dyr eru þannig úr garði gerðar, að þegar maður hefur lokið upp einni, þá tekur við manni örlítið rými, sem er ekki meira en fermeter að flatarmáli, þar sem önnur dyr (og hurð) bíður manns í ofvæni. nú, strangt til tekið, þá ræðir um tvær dyr, en engu að síður, þá finnst mér réttast að tala um þetta sem einar dyr, þar sem þetta fyrirbæri hefur sama tilgang og einar dyr, nefnilega þann að opna fólki leið milli tveggja hliða tiltekins veggs (t.d. milli herbeggja), þrátt fyrir hvimleiða viðbyggingu (þetta er örlítið eins og svona loftlás í vísindaskáldsögum og -bíómyndum).
   dyr af þessu tagi má einkum finna á klósetum almenningsstaða og búningsklefum íþróttabygginga. þú getur kannski spurt þig núna, hvað ertu að tuða, hvert er vandamálið? vandamálið er það, að önnur hurðin, þegar viðkomandi dyr er lokið upp, króar mann af í örlitla rýminu, þannig að til þess að komast út um þær dyr, þá verður maður að halda hinni opni á meðan, sem er oft ekki auðvelt verk. ólíkt hinum klúðrunum, þá er þetta klúður gert af ástæðu: þegnar heimsveldisins eru spéhræddir (sem tengist öðru fyrirbæri), og með því að hafa tvær hurðir fyrir dyrunum, þá eru minni líkur að inn sjáist. en klúðrið er auðvitað klúður, því til þess að komast í gegnum dyrnar, þá þarf náttúrlega að halda báðum hurðunum upp á gátt.

   en nú, eins og ekki sé nóg á þegna heimsveldisins lagt, þá útiloka fyrrgreind klúður auðvitað ekki hvor önnur, því það fyrirfinnast dyr sem eru sameina allt í senn, ungbarna-hurðir, tveggja-handa-hurðir, og tveggja-hurða-dyr.

   það er sannarlega merkilegt, ef maður veltir því fyrir sér, hvað við, íslendingar, guðsvoluð þjóð á hjara veraldar, í eitt-þúsund ára eymd okkar, höfum, þrátt fyrir allt og allt, komist farsællega hjá mistökum á borð við þessi.

mynd vikunnar, vii

miðvikudagur, 2. nóvember


st. andrews kastali.