ungi gamli maðurinn

föstudagur, 30. september
í gegnum tíðina hef ég kynnst ófáu gömlu ungu fólki. gamalt ungt fólk er ungt fólk sem liggur afar mikið á að verða fullorðið, og fer þess vegna yfirleitt á mis við afar dýrmætan hluta lífs síns. svo mætti segja að gamalt ungt fólk sé fólk af því tagi sem er mikið kappsmál að komast sem allra fyrst í jakkafötin. með öðrum örðum, af þeim sem gleyma sér í lífsgæðakapphlaupinu svokallaða, þá er gamla unga fólkið, fólkið sem þjófstartar. samt sem áður, þá er gamla unga fólkið alveg sömu kjánarnir og allt hitt unga fólkið, eiginlega ekkert annað en ungt fólk í afar kjánalegum fullorðinsleik. en velji sér hver sitt.

   fyrir skemmstu hitti ég mann hérna sem er eitthvað bogið við. hvað það er, sem er svona öðruvísi, kom ég samt ekki alveg orðum að í fyrstu. en síðan rann það allt í einu upp fyrir: þarna er á ferðinni einn af unga gamla fólkinu. hingað til hef ég aldrei rekist á slíkan mann, en þessi strákur er næstum andhverfa gamla unga fólksins, í því að gamla unga fólkið er ungt að reyna að vera fullorðið, en unga gamla fólkið, er fullorðið að reyna að vera ungt. þessi strákur er ungur að árum (yngri en ég í öllu falli), en allt annað við hann er gamalt og ævafornt. hvernig hann talar, hvernig hann hreyfir sig, hvernig hann hugsar, og hver afstaða hans er til heimsins, allt minnir mann eina helst á forhertan aldraðan karlfauta. en engu að síður, forhertan aldraðan karlfauta í líkama rúmlega tvítugs manns.

   og fyrir vikið get ég varla slitið augun af þessum manni. þegar maður er áttaviltur, þá getur maður ekki með góðu móti séð hvort vatn rennur upp eða niður í móti--eða jafnvel hvort það renni yfirleitt. og það er einmitt sama tilfinningin sem grípur mig þegar ég fylgist með þessum strák. mig skortir einfaldlega hugtök til þess að átta mig á þessari þversögn sem hann er. gamla unga fólkið er auðskilið, en unga gamla fólkið er mér ráðgáta enn.

módernískur mórall

fimmtudagur, 29. september
í breska dagblaðinu times er daglega dálkur sem nefnist modern morals, sem þýða mætti niður á íslensku sem nútíma siðferði, eða, til þess að halda hljómnum á kostnað merkingarinnar, módernískur mórall. en hvað um það, hvað svona ætti að heita á íslandi skiptir tæplega öllu máli.

   þessi dálkur er þannig úr garði gerður, að lesendur senda inn örstuttar lýsingar á siðferðilegum vandamálum sínum, og dálkahöfundur leysir úr þeim, hverju á fætur öðru, einu á dag. flest vandamálanna eru ekki sérlega íþyngjandi (í öllu falli aldrei neitt sem siðfræðingar myndu nefna dílemmu). til að mynda spurði einn lesandi eitthvað á þessa leið: ég fer út að borða, maturinn er vondur og þjónustan afleidd; þegar ég bið um reikninginn, þá kemur þjónninn með reikning, sem er augljóslega ætlaður öðru borði, upp á þriðjung þess sem ég ætti að borga; ætti ég, í ljósi óánægju minnar, að borga reikninginn og fara, eða leiðrétta mistökinn og borga fyrir það sem ég pantaði? siðfræðingur times greiðir svo úr flækjunni á einföldu og skýru máli, án allra tilvísana í siðfræðileg hugtök, sem allir lesendur geta hæglega skilið . . . og vonandi breytt eftir.

   gott og vel, hugmyndin er ekki sérlega slæm, svo lengi sem lesendur blaðsins eru tilbúnir að fylgja ráðleggingum og breyta rétt. þetta gæti meira að segja skapað störf fyrir þúsundir heimspekinga við að leysa úr hversdagskrísum fólks sem virðist orðið þess ófært sjálft. stjórnmálamenn og stjórnendur sumra fyrirtækja gætu jafnvel séð sóma sinn í því að nota slíka þjónustu.

   en maður spyr sig samt, hvað er svona módernísk við þetta allt? fólk hefur alltaf staðið frammi fyrir siðferðilegum vandamálum. og eðli þeirra hefur ekki breyst mikið í gegnum aldirnar. kannski það sé þetta: nútímafólk er búið að glata hæfileikanum til þess að leysa farsællega úr sínum siðferðilegu vandamálum sjálft. í siðleysi samtímans er fólkið einfaldlega búið að missa getuna til þess að greina rétt frá röngu.

   ef rétt reynist, þá er útlitið ekki bjart. en óneitanlega er það þó huggun harmi gegn að fólk hefur enn þá viljann til þess að reyna. að minnsta kosti einhverjir . . . enn þá allavega.

hlaðborð

miðvikudagur, 28. september
skotarnir gerðu þau skemmtilegu en afar eðlilegu mistök að bjóða mér til hlaðborðs í dag. eins og allir vita sem til mín þekkja, þá er ég mikill matmaður, sem ætti helst ekki að hleypa nærri hlaðborðum af neinu tagi. ég gæti mér auðvitað hófs og var afar siðaður og kurteis og allt það, en samt sem áður fór það ekki fram hjá mér að skotarnir voru furðu lostnir yfir þessum tágranna strákling sem borðaði svo mikinn mat að hann ætti, miðað við alla útreikninga, að falla samam undan eigin þunga. og þegar ég var loks staðinn upp, þá fékk ég enn á ný spurninguna, sem ég fæ ekki svo sjaldan að heyra: hvert fór þetta allt? ef ég--eða einhver--bara vissi það.

pms: bók

miðvikudagur, 28. september

a wild sheep chase eftir haruki murakami (1982)
ég viðurkenni það alveg, að ég les örlítð af bókum. og þegar maður les örlítið af bókum, þá eignast maður fyrr eða síðar uppáhalds höfunda. samt alls ekki þannig uppáhalds höfunda eins og sumir eiga uppáhalds fótboltalið (eða jafnvel stjórnmálaflokka), heldur meira svona uppáhalds höfunda vegna þess að sögur þeirra finna sér ákveðinn stað í hjarta manns. fyrir mig, þá er don delillo einn slíkur. paul auster er einn slíkur. og--síðast en ekki síst--þá er haruki murakami einn slíkur.

   ég er hvorki neinn sérfræðingur um bækur murakamis né um hann sjálfan; til að mynda, þá hef ég aðeins lesið fimm aðrar bækur eftir hann (að þessari undanskilini), ég veit sáralítið um sögusvið sagna hans og þá menningu sem þær spretta upp úr, og ég veit næstum ekkert um murakami sjálfan. samt sem áður, þá finnst mér eins og sérhver saga hans sem ég hef lesið hingað til, sé eins og gerð fyrir mig. ég efast um að ég sé slíku verki vaxinn, en ef ég ætti að skrifa bók til þess að hafa ofan af fyrir sjálfum mér sem lesanda, þá myndi ég ég skrifa einmitt eins og murakami. í sem fæstum orðum: bækur murakami eru eiginlega töfrum líkastar . . . og allavega fyrir mig, þá fæ ég alls ekki séð í gegnum galdrana.

   þegar ég byrjaði á þessari bók, þá var ég ögn hræddur um að það væri kannski einhver byrjandabragur á henni, þar sem hún er jú frá 1982, þegar murakami var ekki nema 33 ára. og það reyndist rétt á vissan hátt. ef, til að mynda, maður ber saman þessa bók og nýjustu bók hans, kafka on the shore, þá skín þroski hans og fágun sem höfundur út úr þeirri síðarnefndu, á meðan allt við þessa bók er ögn óslípaðra og hrárra. engu að síður, þá er a wild sheep chase stórkostleg bók: murakami gerir djarfar tilraunir og--í það minnsta gagnvart mér--kemst fullkomlega upp með þær.

mynd vikunnar, ii

þriðjudagur, 27. september


þessi mynd er úr kirkjugarði st. andrews, sem hefur þann undarlega heiður--ef heiður skildi kalla--að vera fallegasti kirkjugarður sem ég hef nokkru sinni heimsótt.

fyrsti skóladagurinn

mánudagur, 26. september
hananú, þá er fyrsti skóladagurinn að baki. ekki svo ólíkt öðrum slíkum fyrir réttum tuttugu árum, þá vissi ég ekki alveg hvað ég átti í vændum þegar ég valhoppaði með nýju skólatöskuna mína og í nýju skónum mínum í skólann í morgun. einhvern veginn fór þetta allt samt á allra besta veg. krakkarnir í bekknum voru hrikalega indælir við mig allir, stríddu mér ekki neitt . . . og ég stríddi þeim auðvitað ekkert heldur. ólíkt svo oft áður, þá þurfti kennarinn lítið að sussa á mig. ég hef meira að segja á tilfinningunni að ég hafi verið eins og sannur fyrirmyndarnemandi í dag. en sjáum til hversu lengi það varir . . . .

pms: tónlist

sunnudagur, 25. september

push barman to open old wounds eftir belle & sebastian (2005)
skotarnir mega eiga það, að afar mikið af góðri tónlist kemur frá þeim (eiginlega miklu meira en höfðatala þeirra ein gefur manni ástæðu til þess að ætla). frá glasgow kemur hljómsveitin belle & sebastian sem ber sök á broti þess alls. belle & sebastian er ein af þessum hljómsveitum sem er ekki annað hægt en að þykkja vænt um, vegna þess að tónlistin þeirra er bara svo hrikalega viðkunnanleg. push barman to open old wounds er tvöföld plata sem er samsuða sjö (sumra ófáanlegra) ep-platna frá árunum 1997 til 2001: dog on wheels (1997), lazy line painter jane (1997), 3 . . 6 . . 9 seconds of light (1997), this is just a modern rock song (1998), legal man (2000), jonathan david (2001), og i'm waking up to us (2001). eins og yfirleitt er með slíkar samsuður er afurðin ögn sundurlaus . . . enda er ekki um eina afurð að ræða, heldur sjö. tekin með þeim fyrirvara, þá er push barman . . . fín plata. eiginlega virkilega fín plata, og alls ekki síðri sumra lp-platna hljómsveitarinnar.

póstmodernískir strákar lesa bækur

laugardagur, 24. september

fahrenheit 451 eftir ray bradbury (1953)
þetta vissi ég ekki: við 451 gráðu á farenheit (sem eru u.þ.b. 233 gráður á selsíus) þá byrjar pappír að brenna. með öðrum orðum, ef ég myndi fíra svo hressilega upp í miðstöðinni að hitinn færi upp í 233° hjá mér, þá myndi blossa upp í eldur í sérhverri bók . . . og að því virtist sjálfkrafa. ég veit nú samt ekki hvort þessi tala eigi við um sérhverja gerð af pappír; til að mynda, þá finnst mér ekki ósennilegt að glanspappír (svona eins og er í tímaritum og ljósmyndabókum) og klórskolaður pappír (svona skínandi hvítur pappír) hafi allt annað íkveikjumark en venjulegur bókapappír. en hvað um það, slíkt skiptir sko ekki öllu máli, þetta var bara það fyrsta (og ómerkilegasta) af öllu því sem ég lærði af þessari bók.

   en vá. þessi bók kom mér afar skemmtilega á óvart. ég bjóst ekki við neinu sérstöku þegar ég byrjaði að lesa söguna, en fljótlega fékk ég á tilfinninguna að þetta væri ein þessa amerísku bóka sem voru skrifaðar á árunum eftir seinni heimstyrjöldina sem áttu á einn hátt eða annan að gera augljósa hina hrikalegu yfirburði hins ameríska lífsmáta. en mér skjátlaðist: eftir ekki nema tuttugu blaðsíður varð mér ljóst að hér var á ferðinni afar beitt samfélagsgagnrýni, sem á ekki síður við í dag (jafnvel frekar, ef eitthvað er), en hún átti við fyrir rúmum fimmtíu árum. sagan segir af framtíðarsamfélagi sem virðist hætt að hugsa og er firrt allri ábyrgð, og á í tilgangslausu stríði við heim sem hatar það af ástæðum sem það fær ekki skilið. (ég hef ekki orð á því augljósa.)

   það sem gerði samfélag sögunar svo afar trúverðugt var það, að það var búið að mála sig sjálft út í horn. það var ekki illur einræðisherra eða leynileg samtök á vegum ríkisstjórnarinnar eða hryðjuverkamenn eða skrattinn sjálfur, heldur var það fólkið sjálft sem átti sökina. og það sem var kannski enn hrikalegra (og gerði þetta jafnframt enn trúverðugra) var það, að hnignun samfélagsins var afleiðing göfugra hugsjóna og góðra ætlana. örlítið svona eins og maður myndi ætla að hlutirnir séu í alvörunni.

helvíti og háflóð

föstudagur, 23. september
eins og aðrar þjóðir, þá eiga bretar sitt safn af skemmtilegum orðasamböndum. í dag heyrði ég eitt, sem ég hef að vísu heyrt oft áður: hell and high water. ég býst við að þetta orðasamband sé náskylt öðru svipuðu: hell and high tide (sem, til dæmis, söngfuglinn morrissey syngur um í smiths-laginu, what difference does it make?). allavega, orðasambandið er notað þegar vísað er til mikilla erfiðleika, eins og, til að mynda, þegar bretarnir segja: eitthvað eitthvað . . . come hell and high tide, og eiga þá við: sama hvað á dynur, eitthvað eitthvað . . . , og líka: einhver . . . been through hell and high tide, og eiga þá við: einhver . . . hafi gengið í gegnum þungar þrautir.

   en nóg um þetta. það sem mér finnst svo skemmtilegt við orðasambandið er hinn hrikalegi stigsmunur þátta þess: helvítis, annars vegar, og háflóðs, hins vegar (hafi það ekki verið ljóst, þá merkir hvort tveggja, high tide og high water, háflóð). hjá því verður vart komist, helvíti er helvíti. en háflóð, aftur á móti, getur vissulega verið þrándur í götu fyrir suma, en trúlega seint hreinasta helvíti. það, að segja að maður hafi gengið í gegnum helvíti og háflóð, er þess vegna svipað því að segja að maður hafi brotið í sér sérhvert bein og nögl, eða að maður hafi glatað öllu og lyklakippunni líka, eða að maður hafi misst vonina og hárið. fáránlegt.

póstmoderníski strákurinn snýr aftur

fimmtudagur, 22. september
einu sinni þá reyndi ég að blogg-a í örfáar vikur sem postmodern boy, en fljótlega varð blogg-ið mitt lítið annað en uppsöfnuð gagnrýni á allar bækur, tónlist, og annað þess kyns, sem ég var í nálægð við þá og þegar. ekki ólíkt siðaskiptunum, fannst sumum þetta hið versta mál, en engu að síður voru til aðrir sem voru himinnlifandi yfir framtakinu. fyrir þá sem vilja hversdagssögur ætla ég núna að reyna að standa mig ögn betur, en samt sem áður, þá finnst mér eiginlega ekki hjá því komist að minnast á örlítið á það sem ég er að lesa, eða hlusta á, eða horfa á hverju sinni, þar sem allt slíkt er óneitanlega stór hluti af því sem ég er að gera hverju sinni . . . .

on the road eftir jack kerouac (1955)
síðustu fimmtíu árin hefur ekki verið lítið skrifað og skrafað um þessa bók. á bakhlið hennar (allavega útgáfunnar minnar, sem er prýdd fjórum ljósmynda allens ginsbergs) stendur hástöfum: bókin sem skilgreindi heila kynslóð. ég býst við að það sé satt . . . og fyrir það eitt er þetta auðvitað afar merkileg bók. en auk þess er bókin sannarlega mjög vel skrifuð, hún er skemmtilega trúverðug, og lifandi mynd bandarísks samfélags kynslóðarinnar sem óx úr grasi í kjölfari seinni heimstyrjaldarinnar. en ég býst við að ég þurfi ekki að hafa orð á þessu, þúsundir hafa víst gert það á undan mér.

  bókin segir af tveimur félögum, sal paradise, sem er jafnframt sögumaðurinn, og dean moriarty, sem eru annað hvort dauðadrukknir eða bullandi skakkir söguna á enda (með afar fáum undantekningum). á ferðalögum sínum skilgreina þeir vel það sem koma átti: bít-kynslóðina. já já, frásagnirnar eru oft á tíðum mjög skemmtilegar, en eftir 300 blaðsíður af kjánalegum djammsögum fannst mér eiginlega meira en nóg komið. aftur og aftur greip mig sama tilfinningin og grípur mig svo oft á meðal fólks undir áhrifum, sem knýr mig til þess að sporna við fæti, og segja að alveg nóg sé komið af öllu rugli. allavega, reglulega fannst mér bara skynsemisskorturinn orðinn svo yfirþyrmandi að mér svimaði (og það bókstaflega). á ekki neinn hátt gat ég sett mig í spor þeirra sal og dean, því sjálfur hefði ég einfaldlega sagt þetta gott eftir tíu blaðsíður, farið í kalda sturtu, rakað mig, klætt mig í hrein föt, og haldið áfram að taka þátt í lífinu.

   . . . ég hefði trúlega verið afleitt bítnikk.

mynd vikunnar, i

eins og mér tími og innblástur gefst, þá ætla ég að reyna að setja inn mynd frá st. andrews í hverri viku. fyrsta myndin er af rústum dómkirkjunnar í st. andrews . . .

semsagt, svona er þetta

miðvikudagur, 21. september.
hananú, þá er ég víst búinn að koma mér fyrir. og semsagt, svo er þetta: st. andrews er örlítill bær, sem er nefndur eftir dýrlingnum heilögum andrew (eða, upp á íslensku, heilögum andra). eftir því sem ég hef næst komist, þá eru íbúarnir u.þ.b. 18.000 (það er samt rétt að taka það fram, að þessi áætlun er byggð á sögusögnum, en ekki eiginlegum talningum, og ber því að taka þessu með slíkum fyrirvara . . . en nóg um það). þorpið er á austurströnd skotlands, í um það bil klukkustundar lestaferðalagi frá endinborg. þröng strætin og þéttbyggð ævaforn húsin ljá þorpinu ævintýraljóma og rómantík. allar vegalengir hérna eru meira að minna óverulegar, þannig að ég er ekki nema tæpar fjörtíu mínútur að hlaupa umhverfis þorpið--sem þýðir (ef ég hef reiknað þetta allt rétt) að ummál þess er um átta kílómetrar. fólkið hérna (nú skotarnir auðvitað) eru afar vingjarnlegir en á stundum fullkomlega óskiljanlegir.

   allavega, nóg um litla sæta þorpið mitt. sjálfur hef ég það afar gott. ég er búinn að skoða deildina mína; hún er í ævintýralegu húsi við ströndina sem minnir ögn á húsið á hæðinni í psycho. herbergið mitt er sko heldur engin hola, og húsið sem það leynist inn í, það minnir einna helst á kastala. lyktin er ögn skrítin, svona eins og vill oft verða í gömlum húsum (og þetta er víst frá fimmtándu öld), þannig ef ég skil gluggan eftir lokaðan of lengi, þá verður hún oft þrúgandi. en ég örvænti ekki, því í raun getur aðeins tvennt gerst: annars vegar, þá verð ég búinn að lofta út fyrir næsta sumar, og þá verður þetta fínt, eða, hins vegar, þá verð ég orðinn ónæmur ólyktinni, sem verður líka fínt--þannig að hvort sem verður, þá er þetta alls ekki neitt til þess að hafa áhyggjur af . . . . og já, að lokum: ég er kominn með nýtt símanúmer, 00-44-7756-010692, nýtt póstfang, deans court, north street, st. andrews, fife, ky16 9qt, skotlandi, og, já, meira að segja, nýtt tölvupóstfang líka, gah28@st-andrews.ac.uk--ég er nýr ég!