furðulegar staðreyndir

sunnudagur, 30. október
hafi ég aldrei komið upp um mig áður, þá ég er heilmikill aðdáandi tom waits. ég á ekki aðeins við tom waits sem tónlistarmann, heldur líka tom waits sem tom waits. ef ég væri sniðugur, í neikvæðri merkingu þess orðs, þá myndi ég segja, tom waits per se. ástæða þessarar hrifningar minnar er einkum sú, að tom waits er skemmtilegur karl. til að mynda, eða svo segir sagan allavega, þá leggur hann sig í framkróka með að safna furðulegum staðreyndum. þessi siður hans finnst mér harla til eftirbreytni, og þess vegna reyni ég líka að leggja allar furðulegar staðreyndir sem verða á vegi mínum á minnið.

   á föstudaginn bætist aðeins í safnið, því á barnum heyrði ég afar skemmtilega og furðulega en samt sanna sögu. sagan segir frá atburði sem gerðist fyrir tæpum tuttugu árum, eða 1987, í new york.

   af einhverri undarlegri ástæðu, þá voru alfred ayer, mike tyson og naomi campell öll stödd í sömu veislu (sem er í sjálfu sér merkileg staðreynd). nú fyrir þá sem ekki þekkja til þessara persóna, þá var alfred ayer einn af virtari heimspekingum tuttugustu aldar, og var 77 ára þegar eftirfarandi saga gerðist. mike tyson var á þessum tíma tuttugu-og-eins árs og nýorðinn þungavigtar heimsmeistari í hnefaleikum, en mike tyson er jafnframt þekkur fyrir allt annað en siðlega framkomu og vott af skynsemi. og að lokum, þá var naomi campell á þessum tíma eitt eftirsóttasta súpermódel heims.
   sagan hermir að mike tyson hafi þetta kvöld reynt afar harkalega við naomi campell, og áttu aðferðir hans meira skylt við brambrölt hellisbúa og víkinga en siðmenntaðra herramanna. veislugestum var hætt að lítast á blikuna, en auðvitað þorði engin að stöðva þennan hildarleik, því mike tyson er ekki þeirrar gerðar sem maður segir að hafa sig rólegan.
   allt í einu stendur þó upp hrumt gamalmenni, og ávarpar mike tyson á óaðfinnanlegri ensku: fyrirgefðu, ungi maður, en hegðun þín gagnvart ungfrúnni er ósæmileg.
   mike tyson, sem er vart talandi á ensku (hvað þá einhverju öðru tungumáli) tekur þessa truflun auðvitað óstinnt upp, og hreytir út úr sér: veistu hver í andskotanum ég er? ég er þungaviktar heimsmeistarinn í boxi!
   gamli maðurinn, lætur engan bilbug á sér finna, og svarar, enn rólegur, enn á óaðfinnanlegri ensku: og ég er fyrrum wykeham prófessor í rökfræði. við erum augljóslega báðir fremstir í okkar flokki; ég legg til að við tölum um þetta eins og skynsamir menn.
   öllum til mikillar undrunar, þá svarar mike tyson gamalmenninu, sem henn hefði hæglega getað sent inn í eilífðina þá og þegar: ókei, höfum það bara þannig.
   mike tyson, sigraður af alfred ayer, strunsar að svo stöddu burt, og kvöldið líður án frekari uppákomna.

   svona eru kjaftasögurnar í heimspekinni. á milli þess sem við reynum að slétta krumpur í teppinu, þá skemmtum við okkur yfir svona sögum . . . .

pms: tónlist

laugadagur, 29. október

amore del tropico eftir the black heart procession (2002)
þar sem ég er orðinn fátækur námsmaður (eins og ég hafi nokkurn tímann verðið eitthvað annað), þá verð ég að halda aftur af mér í tónlistarinnkaupum. með styrkri hönd og einbeittum vilja er ég búinn að trappa neyslu mína niður í eina plötu á mánuði. eins og þeir sem til þekkja vita, þá er slíkt ekki lítið afrek, og einkum og sér í lagi ef haft er í huga að hérna leynist lítil en furðu góð plötubúð (sem minnir mig ögn á hljómalind, þegar hún var í sem mestum blóma). búðin heitir unknown pleasures eftir fyrstu plötu joy division (1979), sem segir eflaust sína sögu--það sagði mér allavega ákveðna sögu. búðin selur einna helst notaðar vínylplötur og geisladiska, en inn á milli má þó stundum líka finna nýja diska. þrátt fyrir að úrvalið sé lítið, þá skiptir það engu máli, því svo virðist vera að innkaupastjórinn hafi næstum sama tónlistarsmekk og undirritaður. og það besta af öllu er, að diskarnir kosta yfirleitt fimm eða sex pund, sem er ekki nema fjórðungur þess sem maður myndi borga á íslandi.

   en jæja, þá er það semsagt plata mánaðarins. amore del tropico eftir bhp er fyrir margra hluta sakir merkileg plata. bhp hljómar eins og skemmtileg blanda tom waits á bone machine skeiðinu (1992) og nick cave í seinni tíð. þrátt fyrir að greina megi þessa þræði í tónlistinni, þá verður samt framlag bhp alls ekki dregið í efa: á einhvern undraverðan hátt tekst þessum strákum frá hinni sólríku kaliforníu að semja og flytja drungafulla og hráslagalega tónlist sem minnir mig alltaf á nítjándu aldar draugasögu. ég er ekki þaulkunnugur tónlist bhp, en í fórum mínum luma ég einnig á eintaki annarar plötu þeirra, 2 (1999), sem er einnig afar vel heppnað verk. í samanburði við 2 er tónlist amore del tropico öllu flóknari og unnari, en engu að síður er það sami rauði þráðurinn sem rennur í gegnum þær báðar. það er eitthvað við þessa tónlist sem fær alltaf hárin á mér til þess að rísa.

   og svona að lokum, staðreynd sem setur hlutina í smá samhengi: pall jenkins, sem er aðalmaður bhp, vann mjög náið með jimmy lavelle, sigur rós og animu við gerð nýjustu plötu album leafs, in a safe place (2004), sem var að mestu leiti tekin upp í sundlaug sigur rósar í mosfellsbæ. pall jenkins er meira að segja skrifaður fyrir tveimur lögum plötunnar ásamt jimmy lavelle, on your way og eastren glow, sem sá fyrrnefndi syngur á sinn hráslagalega hátt. og jafnvel, ef maður leggur vel við hlustir, þá þarf ekki glöggt eyra til þess að heyra hin drungalega blæ sem gegnsýrir tónlist bhp í þessum lögum.

pms: kvikmynd

föstudagur, 28. október

akira í leikstjórn katsuhiro otomo (1987)
akira, eftir katsuhiro otomo, er ein--jafnvel hin--mikilfenglegasta teiknimyndasaga sem nokkru sinni hefur verið skrifuð. sagan fyllir sex bindi, sem innihalda samtals um tvö þúsund blaðsíður. en auðvitað, eins og sumir rithöfundar vita ekk, þá er það ekki lengd hennar sem ljáir henni mikilfengleikann, heldur gæði hennar (nema hvað?). en nú, síðan var gerð teiknimynd . . . .

   teiknimyndin er rúmir tveir klukkutímar á lengd. að gera tvö þúsund blaðsíðna teiknimyndasögu skil á tveimur klukkutímum er auðvitað næstum ómögulegt. það kemur þess vegna manni ekki á óvart að sagan í teiknimyndinni er einfaldlega allt önnur saga en sagan í bókinni. jú jú, næstum allar helstu persónurnar eru enn til staðar, umhverfið og tíminn er enn sá sami, en að öðru leiti er lítið eftir óbreytt (og þá á ég ekki við að sagan sé ögn snyrt til, eins og á oft við um leikgerðir bóka, heldur er leikgerðin svo gott sem allt önnur saga). góðu heilli, þá er leikgerðin skrifuð og myndinni leikstýrt af katsuhiro otomo, sem skrifaði hina upphaflegu akira. myndin hefur þess vegna blæ keimlíkan upphaflegu sögunni. myndin er auðvitað ekki slæm, en segir samt sem áður lítið annað en hressilega stílfærðan úrdrátt þess sem upphaflega sagan sagði. synd.

. . . og svo loksins, lausnin

þriðjudagur, 25. október
fyrir réttri viku setti ég fram, það sem ég kallaði erfiðustu rökþraut allra tíma. hvort þessi þraut sé í raun og veru erfiðasta rökþraut allra tíma veit ég ekki, en mér finnst það samt örlítið ólíklegt, því, til að mynda, myndi ég halda sönnun (nú eða afsönnun) tilgátu goldbachs öllu snúnari--fólk er jú búið að reyna án afláts og árangurs síðustu 263 árin. engu að síður, þá verður því auðvitað ekki neitað, að þessi svokallaða erfiðasta rökþraut allra tíma er ekki auðveld. og ef einhverjum tókst að leysa hana, þá get get ég ekki annað sagt en, vel af sér vikið!

   áður en lengra er haldið með lausnina, þá er nauðsynlegt að kynna til sögunnar, fyrir þá sem ekki þekkja, röktengið ef og aðeins ef, sem er yfirleitt táknað í formlegri rökfræði sem þrjú lárétt strik hvert ofan á öðru (eins og = með auka striki), eða sem ör sem bendir í báðar áttir (en þar sem ég get ómögulega birt slíkt hérna, þá nota ég <->). virkni tengisins er skilgreind eftirfarandi: a<->b er satt, þá og því aðeins, að bæði a og b er satt, eða bæði a og b er ósatt (og, þar af leiðandi ósatt ef a er satt og b er ósatt, eða ef a er ósatt og b er satt). og hér er lausnin . . . .

fyrsta spurning: a er spurður, þýðir da já? <-> ert þú satt? <-> er b handhóf?

önnur spurning: þessi spurning veltur á svarinu við síðustu spurningu . . . .
   hafi svarið við fyrstu spurningunni verið da, þá er c annað hvort satt eða ósatt. því er c spurður, þýðir da já? <-> er róm í ítalíu?
   hafi, hins vegar, svarið við fyrstu spurningunni verið ja, þá er b annað hvort satt eða ósatt. því er b spurður, þýðir da já? <-> er róm í ítalíu? (það skiptir ekki öllu máli hvort spurt sé hvort róm sé í ítalíu, eða hvort 1 + 1 = 2, eða hvað eina, staðhæfingin sem spurt er um verður bara að vera sönn.)

þriðja spurning: þessi spurning veltur (einnig) á svarinu við síðustu spurningu . . . .
   hafi svarið við síðustu spurningu verið da, þýðir það að sá sem var hennar spurður er satt, og hafi svarið verið ja, ósatt. nú, gefum okkur bara að b hafi verið spurður síðustu spurningar, b er þá spurður (aftur), þýðir da já? <-> er a handahóf? nú, hafi b svarað síðustu spurningu da, þá er b satt, og hafi b svarðað þessari spurningu sem da, þá er a handahóf og c ósatt, en hafi b svarað þessari spurningu sem ja, þá er a ósatt og c handahóf. hafi b hins vegar svarað síðustu spurningu ja, þá er b ósatt, og hafi b svarðað þessari spurningu sem da, þá er a satt og c handahóf, en hafi b svarað þessari spurningu ja, þá er a handahóf og c satt.
   en hafi hins vegar c verið spurður síðustu spurningar, c er þá spurður (aftur), þýðir da já? <-> er a handahóf? nú, hafi c svarað síðustu spurningu da, þá er c satt, og hafi c svarðað þessari spurningu sem da, þá er a handahóf og b ósatt, en hafi c svarað þessari spurningu sem ja, þá er a ósatt og b handahóf. hafi c hins vegar svarað síðustu spurningu ja, þá er c ósatt, og hafi c svarðað þessari spurningu sem da, þá er a satt og b handahóf, en hafi c svarað þessari spurningu ja, þá er a handahóf og b satt.

   svona einfalt er þetta bara . . . . nei, núna er undirritaður bara að reyna að vera sniðugur með kaldhæðni: þetta er ekki alls létt þraut. allavega, ef eitthvað er ekki skýrt í framsetningu minni hér að ofan, þá bendi ég á kaflann the hardest logical problem ever í bók george boolos, logic, logic and logic, frá 1998, þar sem ég rakst á þessa gátu. lausn gátunnar er þar gerð öllu ítarlegri skil.

mynd vikunnar, vi

mánudagur, 24. október


þetta eru rústir st. andrews kastalans. og já, það eru auðvitað byggingar hérna sem eru ekki rústir . . . .

krumpur i teppinu

laugardagur, 22. október
í gær var ég á skemmtilegum fyrirlestri í föstudagsklúbbnum, sem fjallaði um ónákvæma hluti (þetta er djörf þýðing hjá mér, en fyrir þá sem hafa áhuga, þá er það ontic vagueness sem ég er að tuða um). nú nú, fyrir þá sem ekki vita, þá er ónákvæmni poppið í heimspekinni í dag, og er búin að vera það síðustu þrjátíu árin. til þess að fyrirbyggja allan misskilning, þá á þetta tískufyrirbæri auðvitað ekkert skylt við önnur slík fyrirbæri, vegna þess að allt í heimspekinni er auðvitað grafalvarlegt (eða það höldum við allavega).

   en já, semsagt ónákvæmni vísar að minnsta kosti til orða (eða hugtaka) eins og sköllóttur, þar sem mörkin á milli sköllóttur og ekki sköllóttur eru óljós. til dæmis, þá geta allir verið sammála um það, að davíð oddsson er ekki sköllóttur, á meðan steingrímur j. sigfússon er augljóslega sköllóttur, en tilfelli sem eru--svo að segja--á jaðrinum eru ekki ljós, eins og pétur blöndal: er hann sköllóttur eða ekki? og sköllóttur er auðvitað ekki eina orðið, málið er næstum bókstaflega fullt af þeim.

   margir eru sammála um það, að þessi ónákvæmni eigi rætur sínar í málinu (eða hugtakanetinu), og ef, til að mynda, orð eins og sköllóttur yrðu fastskorðuð í eitt skipti fyrir öll, til dæmis með því að skilgreina sköllóttur sem eiginleikann að hafa færri en tíu þúsund hár á kollinum, þá væri auðvitað ekki nokkur spurning um hvort pétur blöndal væri sköllóttur eða ekki. en auðvitað er ekkert hlaupið að því. þetta er hvorki meira né minna en nýtt tungumál (og hugtakakerfi) sem við þurfum. til eru þeir sem segja, að jafnvel þó við myndum reyna slíkt, þá væri það ekki hægt, því ef við myndum reyna að slétta krumpurnar í merkingarteppinu, þá myndu þær einfaldlega birtast annars staðar. um slíkt ætla ég auðvitað ekki að fjölyrða, en tilhugsunin er í það minnsta kosti ögn heillandi.

   en auðvitað eru til aðrir sem halda því fram að ónákvæmnin eigi ekki rætur sínar í málinu, heldur í heiminum. með orðum orðum, krumpurnar í teppinu eru tilkomnar vegna þess að gólfið er óslétt. það sem er átt við með slíku er að til séu ónákvæmir hlutir. hvernig nákvæmlega ónákvæmir hlutir ættu að vera er auðvitað ekki auðsagt, en, til dæmis, þá má ímynda sér hlut sem stendur fast við annan hlut (ég er ekki að tala um neitt óhversdagslegt, til að mynda, þá má bara ímynda sér handaband eða jafnvel þig og andrúmsloftið sem umlykur þig). segjum enn frekar að ég geti bent á tiltekin atóm, og spurt: er þetta atóm hluti þessa hlutar eða hins? nú, augljóslega, þá eru sum atóm sem hljóta að tilheyra öðrum hvorum hlutnum, en einhver atóm, sem eru á jaðri hlutanna, hvað segjum við um þau? hvorum hlutnum tilheyra þau? hvorugum? báðum? eða öðrum hvorum? ef slík atóm eru til staðar, þá er allavega annar hluturinn ónákvæmur hlutur. en bíddu nú við, þetta er ekki alveg svona einfalt, því auðvitað er þessi frásögn mín uppfull af orðum (hugtökum), og hvernig veit ég að það eru ekki þau sem ónákvæm? hlutur? jaðar? að standa þétt upp við eitthvað? að tilheyra? þetta eru auðvitað allt ónákvæm hugtök. jafnvel atóm er ekkert nema hugtak, eins og ég tala um það. hvernig veit ég hvort ónákvæmninn hafi ekki bara laumað sér bakdyra megin inn í þessa lýsingu?

   fyrirlesturinn fjallaði auðvitað eiginlega ekki um neitt af þessu, enda var hann öllu tæknilegri. mig langaði bara til þess að kynna þig, lesandi góður, fyrir tískunni hérna meginn . . . ég læt síðan þér eftir að dæma um gildi hennar (og auðvitað, ef þú vilt, heimspekinnar yfirleitt).

pms: kvikmynd

föstudagur, 21. október

pulp fiction í leikstjórn quentin tarantino (1994)
um daginn, mér til mikillar furðu, þá áttaði ég mig á því að ég er ekki búinn að horfa á sjónvarp í meira en mánuð. til þess að bæta úr því hallæri, þá fór ég á bókasafnið hérna og tók mér pulp fiction á dvd. þar sem hæfileikar mínir liggja ekki í því að horfa á sjónvarpið, þá tók það mig nokkur kvöld að horfa á myndina, en að lokum þá tókst mér það. auðvitað. nú, pulp fiction er mynd sem ég hef alltaf álitið meistarastykki, þrátt fyrir það, að ég hafi bara séð hana einu sinni, og það fyrir réttum ellefu árum, þegar ég var ekki nema fjórtán ára. forsendur mínar fyrir slíkum dómi eru auðvitað afar hæpnar, þar sem ég sá myndina--eðlilega--með unglingsaugum, jafnvel barnsaugum (þó ég hafi auðvitað álitið mig mjög fullorðinn þá, jafnvel fullorðari en ég lít á mig í dag). en hvað um það, þegar ég sá tækifærið til þess að réttlæta óréttlætta skoðun mína, þá greip ég það náttúrulega.

   en jæja, það er skemmst frá því að segja, ég hefði auðvitað getað eytt tveimur og hálfum klukkutíma ævi minnar betur, því myndin er einfaldlega enn sama meistaraverkið. ég er auðvitað vissari í minni sök um ágæti myndarinnar, en að öðru leiti hefur afar lítið breyst í heimi skoðanna minna. en jú, auðvitað, sé horft þannig á málið, þá voru þetta auðvitað mjög góðir tveir og hálfur klukkutímar, þar sem myndin var feikn góð skemmtun.

mynd vikunnar, v

miðvikudagur, 19. október


þessi mynd sýnir glöggt byggingarstílinn hérna. í bakgrunni má sjá rústir st. andrews kastalans. ef þú gengur áfram þessa götu, í átt að kastalanum, og til vinstri þrjú-hundruð metra, þar er skólinn minn, og ef þú snýrð strax til hægri á horninu, og gengur fimmtíu metra, þar bý ég . . . bara svona ef svo vildi til, að þú myndir einhvern tímann standa á gatnamótum north street og castle street, og vilja komast til mín eða í heimspekideildina.

erfiðasta rökþraut allra tima?

þriðjudagur, 18. október
í síðustu viku var ég að blaða í gegnum bókina logic, logic and logic eftir george boolos (1998). ekki að það skipti neinu sérstöku máli, en ég var að lesa nokkra kafla um frege í þessari bók, þegar ég allt í einu rak augun í kaflann the hardest logical puzzle ever (sem má þýða niður á íslensku sem, erfiðasta rökþraut allra tíma). illu eða góðu heilli, verandi eins og ég er, þá gat ég auðvitað ekki látið slíkt kyrrt liggja. gátan er eftirfarandi:

   þrír guðir, sem við getum kallað a, b og c, heita satt, ósatt og handahóf í einhverri röð (þ.e. a þarf alls ekki að heita satt, b ósatt, og c handahóf). séu þessir guðir spurðir spurninga, þá segir satt alltaf sannleikann, ósatt segir aldrei sannleikann, og handahóf segir stundum sannleikann og stundum ekki (m.ö.o. það er hendingu háð hvað handahóf segir hverju sinni). verkefni þitt er að komast að því hvaða guð er hver (þ.e. hvort a sé satt, ósatt eða handahóf, o.s.frv.). til þess að komast að því máttu spyrja þriggja spurninga. hverri spurningu má aðeins beina að einum guð, og spurningarnar verða að vera þannig að svörin við þeim eru annað hvort já eða nei. hvort hver guð sé spurður einnar spurningar, eða einn tveggja og annar einnar, eða einn allra þriggja, skiptir ekki máli. enn fremur mega spurningarnar vera háðar svörum fyrri spurninga. til þess að flækja málin enn frekar, þá skilja guðirnir íslensku (þannig að spurningarnar mega vera á íslensku) en þeir svara öllum spurningum á sínu eigin máli (sem þeir tala allir), þar sem orðin ja og da merkja já og nei, en hvort merkir hvað veistu auðvitað ekki (þ.e. ja gæti merkt já og það gæti merkt nei, og da öfugt).

   ég skal birta lausnina í næstu viku. en þar til þá: gangi þér vel . . . .

lestrarhelgi

mánudagur, 17. október
hananú, þá er helgin að baki, og útilegan til raasay--sem var að nafninu til lestrarhelgi fyrir framhaldsnemendur og kennara í heimspeki við st. andrews--er búin. óspennadi kanntu kannski að segja, enda er fjögura daga ferðalag í hópi heimspekinga ekki landlæg hugmynd um skemmtun. trúðu því sem þú trúa vilt, en raunin er samt sú að helgin var mjög skemmtileg. eðlilega var lítið lesið, enda yfirlýstur tilgangur ferðarinnar fyrirsláttur. á daginn var talsvert hafst úti við við allskyns iðu, enda hásumarveður á íslenskan mælikvarða. en á kvöldin voru lesnir misframbærilegir pappírar til skiptis uns tekist varð á við aðrar athafnir.

   furðu margt var gott við þessi helgi, en ef ég ætti að nefna eitt, þá er það leikurinn mafía sem hefur víst fyrir löngu öðlast fastan sess í þessum árlegu ferðalögum. nú, mafía er í sjálfu sér feikn einfaldur leikur, ekki ósvipaður morðingja, sem ég geri ráð fyrir að flestir hafi allavega einhvern tímann heyrt um, ef þá ekki spilað. það sem gerði þennan leik svona skemmtilegan var einmitt félagsskapurinn--og þar með er líka að eini samkvæmisleikurinn sem er virkilega gaman að spila með heimspekingum fundin. ástæðan er sú, að ásakanir og varnarræður (sem er eiginlega kjarni leiksins) eru heimspekingum annað eðli, þannig að í hvert skipti sem einhver var ásakaður, þá voru það vandlega rökstuddar og oft á tíðum flóknar ásakanir, og þegar hinn ásakaði reyndi að sanna sakleysi sitt, þá voru það sömuleiðis (yfirleitt) afar vel útfærð rök sem fylgdu máli viðkomandi til stuðnings. undirritaður var furðu fljótur að komast upp á bragðið, og var svo komið í lok helgar að hann var orðinn næstum ósigrandi í leiknum, við lítinn fögnuð, en þó talsverða hrifningu, eldri og reyndari leikmanna.

útilega

föstudagur, 14. október
ókei, þetta er kannski ekki alveg útilega, en ferðalag samt. semsagt, núna á eftir, þá er ég að fara til raasay. ég veit ekki mikið um raasay, en það sem ég veit er þetta: raasay er lítil eyja við vesturströnd skotlands, eiginlega milli skye og skotlands. mér er sagt að eyjan sé mjög falleg, sem gefur mér auðvitað góða afsökun fyrir því að taka með mér myndvél. auk þess eiga að vera mjög freistandi fjöll í nágrenninu, en þar sem ekkert til slíkra athafna fylgdi mér hingað, þá verða þau að bíða til betri tíma. en allavega, ég segi nánar frá á mánudaginn . . . .

pms: bók

fimmtudagur, 13. október

in the country of last things eftir paul auster (1987)
ef ég ætti að skipa hlutunum í lífi mínu í einhvers konar stigveldi, eftir því hversu kærir þeir eru mér, þá myndu sögur pauls austers lenda mjög ofarlega. (ég er reyndar ekki svo viss um að sögur megi með góðu móti skilgreina sem eiginlega hluti, þar sem sögur hafa hvorki rúmtak né þyngd . . . en hvað um það, þetta eru bara óþarfa hártoganir, segjum bara að þetta sé stigveldi alls annars en fólksins í lífi mínu, ókei.) þegar kemur að eftirvæntingu, þá er það í raun ekki svo ósvipað jólunum fyrir mig að byrja á sögu eftir paul auster. einmitt þess vegna, þá reyni ég ögn að halda aftur af mér, bæði að lesa einstakar sögur ekki of hratt, og hitt, að bíða að minnsta kosti í nokkra mánuði áður en ég byrja á næstu sögu. en slíkt er auðvitað ekki auðvelt verk, og krefst bæði sterkrar manngerðar og mikils sjálfsaga.

   en nóg um það, þessi saga stóðst vel undir væntingum, og ég býst við að það segi allt sem segja þarf . . . .

um raungildi regnhlífa

miðvikudagur, 12. október
í dag hélt áfram að rigna. og það var sko engin smá rigning. ég hef séð ýmsar gerðir af rigningu í gegnum tíðina, en aldrei neitt þessu líkt. þrátt fyrir alkunna þolinmæði mína í garð veðursins, þá var mér nóg boðið seinni part dags og ákvað að kaupa mér regnhlíf. auðvelt eins og það kann að virðast, þá var slíkt ekki létt verk, því svo virðist vera sem óþolinmæði allra annara hafi gert framboð regnhlífa hérna fráleitt. allavega, að lokum tókst mér þó að finna mér regnhlíf, og ekki slæma heldur: samanbrotin, þá er hún á stærð við farsíma, þannig--ef maður er á annað borð gefinn fyrir að geyma hluti í vösum--þá gæti hún passað í næstum sérhvern vasa. þegar hún er spennt, þá er er þvermál hennar hvorki meira né minna en 86 sentimetrar. og, eins og það sé ekki nóg, hún vegur ekki nema tæp hundrað grömm. í einu orði sagt, verkfræðiundur. og, það ótrúlegasta er, þessi kynja- og kostagripur rataði upp í hendur mínar fyrir ekki nema 7 pund og 99 pens.

   en það mikilfenglegasta við þessa regnhlíf er þó enn ósagt: þegar ég steig út úr búðinni og spennti upp þetta djásn, þá stytti upp samstundis og hefur ekki byrjað aftur. svo virðist vera sem þessi handhæga en burðuga regnhlíf hlífi manni ekki aðeins fyrir regninu, heldur stjórnar hún því líka.

makríll og silungur

þriðjudagur, 11. október
í dag er búið að rigna heil reiðinnar óskup hérna í st. andrews (ef tom waits væri að skrifa þetta, en ekki ég, þá myndi hann kannski orða það svo, að það væri búið að rigna makríl og silungum . . . en hvað um það, það er víst ég sem er að skrifa þetta, ekki tom waits). í hvert skipti sem ég hef farið milli húsa í dag, þá varð ég holdvotur. og þegar ég kom heim í kvöld, þá átti ég í mesta basli vegna mannýgra vatnavaxta.

   þegar ég ætlaði að hlaupast undan heimspekilegum vandamálum mínum seinni partinn, þá greip mig slíkt endemis hugleysi að ég endaði bara með því að flýja vandamálin (og rigninguna auðvitað) ofan í kaffibolla með smá skáldskap mér til félagsskapar. þar sem ég sat inni í hlýjunni á kaffihúsinu og fylgist með rigningunni fyrir utan, milli þess sem ég gleymdi mér í félagsskapnum, þá komst ég ekki hjá því að hugsa um hetjuna mína, hann júlíus stíg minn, en hann er þessa dagana að skokka á íslandi. hann--herkúles litli--myndi sko ekki láta svona ragnaða rigningu stoppa sig.

hreinlætisvenjur

mánudagur, 10. október
margt finnst mér sniðugt hérna í skotlandi--mjög sniðugt jafnvel. með glöggu gestsauga kom ég auga á sumt undir eins, meðan annað tók mig þó aðeins lengri tíma, en núna er ég búinn að átta mig á næstum öllu hérna. það er að segja, öllu því sem mér þótti óskynsamleg og jafnvel óskiljanlegt, þegar ég fyrst kom hingað, það er orðið frekar skynsamlegt og skiljanlegt núna. engu að síður er það enn eitt sem ég skil bara alls ekki: hvenær fer fólkið í bað hérna.

   auðvitað get ég dregið þá álytkun að fólkið hérna hlýtur að fara í bað, því hlutfall illa lyktandi fólks hérna er ekki hærra en víða annars staðar þar sem ég hef komið. samt sem áður, á morgna þegar ég fer í sturtu, þá þarf ég aldrei að bíða eftir sturtunni, þrátt fyrir að við séum þónokkur sem deilum henni (í það minnsta að nafninu til). og eftir karate, þá fer aldrei neinn í sturtu nema ég, hinir klæða sig bara aftur sveittir í fötin sín og hverfa. og ef ég fer út að hlaupa, þá er aldrei neinn í sturtunni þegar ég kem til baka. nú, tölfræðilega, þá er þetta ekki lítið úrtak sem ég alhæfi frá, sem gefur mér góða ástæðu til þess að ætla að tilgáta mín sé marktæk. en það getur bara ekki verið, því augljóslega, þá hlýtur fólkið hérna að baða sig.

   kannski er ég að fara á mis við eitthvað stórkostlegt. mögulega fer fólkið í sturtu á nóttinni, og mögulega eru einhverjar leynisturtur sem fólkið notar hérna. en í öðru falli, þá fæ ég bara engann botn í hreinlætisvenjur hérna.

mynd vikunnar, iv

sunnudagur, 9. október



síðustu þrjár myndir eru allar búnar að vera grófkorna, svart-hvítar og hræðilega drungalegar. þetta er tilraun til þess að færa smá lit í þetta. hérna, eins og víða annars staðar, þá eru húsþökin ögn einkennandi fyrir staðinn.

pms: bók

laugardagur, 8. október

as i lay dying eftir william faulkner (1930)
því verður vart neitað, þetta er ein erfiðasta saga sem ég hef lesið. það er ekki það, að flétta sögunnar sé flókin, þvert á móti, hún er eins einföld og þær gerast. það sem gerir söguna erfiða er frásagnarformið sem faulkner velur henni: sérhver kafli hefur sinn sögumann (svona a, b, a, c, a, b, d, e, f, a, g, . . . form), sem segir framvindu sögunnar með eins konar innra eintali (eða straum meðvitundar, eins og slíkt er stundum kallað). sérhver persóna hefur sínar skoðanir á því sem fyrir ber (sem, eðlilega, eru stundum ekki samhljóða skoðunum annara persóna), og er því oft eins og sé verið að segja nokkrar mismunandi sögur. hver persóna hefur sinn eigin hugsunarhátt og talsmáta, og eru haldnar sínum grillum, sem gerir kaflaskiptin oft afar ruglandi. og auk þess, til þess að gera menn enn viltari, þá flakka kaflarnir talsvert fram og aftur í tíma, sumir þeirra skarast, á meðan aðrir segja forsögur.

   en einhvern veginn, á sannarlega undraverðan hátt, þá tekst faulkner þetta fullkomlega. árangurinn gerði erfiðið fullkomlega þess virði: eftir allt streðið, þá er niðurstaðan góð. ekki bara góð, heldur stórkostleg.

pms: bók

föstudagur, 7. október

kommúnistaávarpið eftir karl marx og friedrich engels (1848)
um það verður ekki þráttað, kommúnistaávarpið er ein áhrifamesta bók sem nokkurn tímann hefur verið skrifuð. það í sjálfu sér er afar merkilegt, en enn merkilegra í ljósi þess, að þetta er í raun aðeins ritgerð upp á tæpar fimmtíu blaðsíður. það, að lesa kommnúnistaávarpið í dag, rúmri einni og hálfri öld eftir að það var skrifað, er auðvitað lítilfjörleg reynsla miðað við hvernig lestur þess hefur verið í samhengi samfélags þess tíma, en engu að síður, mjög áhrifarík lesning. það, að lesa kommúnistaávarpið er ögn eins og að lesa uppruna tegundanna eftir darwin: ekki svo mikil uppljósrun, þar sem hugmyndirnar hafa allar áður, aftur og aftur, borist manni eftir einni eða annari leið, heldur frekar frábær heimild um löngu liðinar hugsanir sem hafa breytt heiminum.

   það sem kom mér mest á óvart við lesturinn, var inngangur bókarinnar. inngangurinn var skrifaður 1998 (á 150 ára afmæli bókarinnar) af helsta rússlandssérfræðingi bandaríkjanna, martin malia. martin þessi malia, sem er nýverið látinn, dregur þá ályktun í inngangi sínum, að vegna þess að sovétríkin liðu undir lok, þá sé kommúnismi afleidd hugmynd, og því sé lítið gott að finna í kommúnistaávarpinu. þetta finnst mér hæpin afleiðsla. einkum og sér í lagi, ef haft er í huga, að margt af því sem gert var í nafni kommúnisma í rússlandi, átti ekkert skylt við kommúnisma. kjarni kommúnismans, eins og ég skil hann, er lítið annað en þessi hugsun: allir verðskulda virðisauka vinnu sinnar. hvað sú hugmynd hefur að gera með kerfisbundin morð miljóna, er mér fullkomlega óskiljanlegt. það er satt, kommúnisminn var notaður sem réttlæting fyrir mögum hörmulegustu grimmdarverkum mannkynnsögunnar, en aðeins á sama hátt og trú hefur iðulega verið notuð í gegnum tíðina, og á sama hátt frelsi og lýðræði er notað í dag: þetta eru bara inntantóm orð sem stjórnendur hvers tíma nota sem réttlætingu fyrir því sem ekki verður réttlætt á æskilegan máta. það má vel vera að sitthvað sé að kommúnisma, og fyrir því megi færa mörg góð og málefnaleg rök, en þetta er afleitt. alveg afleitt. kannski má greina hugmyndina og finna í henni mótsögn eða falska forsendu að baki henni eða leiða af henni óæskilega niðurstöðu, en það, að benda á sögulegan atburð, sem kommúnismi er ein ótal orsaka, og segja því kommúnismann nauðsynlega og nægilega ástæðu atburðarins (eins og til dæmis, hliðstætt, að halda því fram að sjálfstæðisbrölt íslendinga sé ástæða stóriðjuframkvæmda á íslandi), er bara laust við alla skynsemi.

   í inngangi sínum segir martin malia margt, en innhaldið er samt frekar rýrt: ha ha, marx og engels voru bjánar, þeir voru bara áróðursmeistarar. rússar voru enn meiri bjánar að falla fyrir vitleysunni í marx og engels, ha ha. og öll önnur ríki, sem í skemmri eða lengri tíma hafa aðhyllst kommúnisma, þau eru uppfull og bjánum líka. en við bandaríkjamenn, við höfum sko alltaf séð í gegnum ruglið. þess vegna erum við bestir. ha ha. ég veit ekki almennilega hvernig maður á að byrja á því að svara svona löguðu. ég vona bara að fólk sjái almennt í gegnum svona vitleysu. eins og ég sagði, stjórnmálaskoðanir eru til þess fallnar að hljóta verstu meðferð sem fyrir finnst. og hérna höfum við eitt stórkostlegt dæmi.

hættur heimspekinnar

fimmtudagur, 6. október
stundum fæ ég það á tilfinninguna að heimspekingar hafi býsna óraunhæfar og uppblásnar hugmyndir um það sem þeir gera. þó svo að heimspekingar hafi oft á tíðum fjandi gott lag á því að koma réttum orðum að hlutunum, þá, þegar kemur því að lýsa atvinnu sinni, eru þeir stundum æði fjarri sannleikanum. til að mynda las ég þetta í dag (en oft áður hef ég lesið eitthvað þessu keimlíkt):

it would be dangerous to deny, from a philosophical armchair, that cognitive psychology is an intellectually respectable discipline, at least so long as it stays within its proper bounds (john mcdowell, mind and world, s. 55).

nei nei nei og aftur nei! það er hættulegt að stofna til slagsmála við ísbirni og það er hættulegt að borða hrátt hænsnakjöt, en það, að hugsa það sem ekki er, það er ekki hættulegt. fólk gerir það oft sérhvern dag stórslysalaust. það, að hugsa það sem ekki er, þegar ætlunin er að hugsa um það sem er á annað borð, getur verið hvimleitt, en tæplega hættulegt . . . .

skosk matargerð: haggis

miðvikudagur, 5. október
eftir að skotarnir buðu mér til hlaðborðs, þá held ég að þeir séu farnir að gefa matarlyst minni dálitlar gætur. að minnsta kosti hef ég haft það á tilfinningunni undanfarið að þeir séu að prófa mig svolítið í þessum efnum. í dag buðu þeir mér haggis. nú, fyrir þá sem ekki vita, þá er haggis það allra frægasta úr skoskri matargerð, búið til úr innyflum kinda eða kálfa, blandað með mör, haframjölli og kryddblöndu, sem er svo soðin í dýrsmaga (yfirleitt viðkomandi kindar eða kálfs). allavega, í gegnum tíðinna hef ég heyrt hræðilegar hrillingssögur um haggis: þónokkrir hafa meira að segja tekið svo sterkt til orða að haggis væri versti og ógeðslegasti matur sem til er. þrátt fyrir að slíkt sé auðvitað aðeins smekksatriði, þá var ég ögn á nálum þegar ég stakk fyrsta bitanum upp í mig . . . .

   en til þess að gera langa sögu stutta, þá fannst mér haggis hrikalega gott. kannski ekki það allra besta sem ég borðað, en engu að síður, trúlega það besta sem ég hef bragðað á síðan ég kom hingað út. og það þarf varla að taka það fram, en núna er ég orðinn sannur sonur skotlands í augum skotanna minna--það er eitt að kunna að meta skoskt viskí og kunna að tala með skoskum hreim, en það, að kunna að meta haggis, það er það sem gerir þá klökka.

pms: bók

þriðjudagur, 4. október

1984 eftir george orwell (1949)
eftir að hafa lesið fahrenheit 451, þá lá það eiginlega beinast við að lesa aðra svipaða bók: 1984. 1984 er öllu viðmeiri, flóknari og fágaðri saga, auk þess sem sagan er hugmyndafræðilega betur útfærð, þar sem hún gerir grein fyrir innviðum samfélags sögunar í þvílíka þaula, að oft minnir sagan meir á rannsókn á stjórnarfari en sögu. þrátt fyrir að sögurnar séu keimlíkar á ótal vegu, þá er eitt sem skilur skarplega á milli þeirra: nefnilega bakgrunnur útópíanna sem þær segja frá. á meðan samfélag 1984 er harkalega stéttarskipt fáræðissamféleg, þar sem illir stjórnendurnir eru búnir að fullkomna stjórn sína yfir lægri stéttunum, þá segir fahrenheit 451 af samfélagi sem er búið að mála sig út í horn með góðum ætlunum sínum.

   áður en ég held lengra með þessa umfjöllun er rétt að taka eitt fram: 1984 (og dýrabær orwells, ef því er að skipta) er alls ekki ádeila á sósíalisma eins og oft er haldið fram--og þá einkum og sér í lagi af svörnum andstæðingum sósíalisma. sagan segir af hráslagalegu fáræðissamfélagi sem hefur sprottið upp í nafni sósíalisma, en á alls ekkert skylt við sósíalisma. kannski það sé einhver sem reynir að halda því leyndu, en af einhverjum ástæðum er það lítið þekkt staðreynd meðal almennings, að george orwell aðhylltist sósíalisima sjálfur. orwell skrifaði meira að segja talsvert af ritgerðum um sósíalisma, og hvernig sósíalisma yrði best komið á í englandi, þeirra á meðal er the lion and the unicorn: socialism and the english genius, sem er trúlega þeirra frægust. ég er alls engin stjórnmála-heimspekingur, og ætti þess vegna að fara varlega í notkun þessara hugtaka í þessu samhengi (að því gefnu að ég vilji vera sannleikanum trúr á annað borð), en engu að síður get ég ekki séð betur en þarna úti sé urmull slæmra raka gegn sósíalisma sem eru svo óskynsamleg að ég fæ ekki skilið að nokkur heiðarlega umhugsun og íhugun hafi átt þar hlut að máli. og það að segja 1984 og dýrabæ (og jafnvel frelsi mills) sem rök gegn sósíalisma eru ekki þau verstu. en um ómálefnalega meðferð stjórnmálaskoðanna ætla ég ekki að fjölyrða meira að sinni.

   en já, sagan. 1984 er einstaklega vel skrifuð bók . . . eiginlega svo, að aftur og aftur, þá las ég heillaður einstaka hluta hennar aftur, á meðan ég las hana. ég veit ekki hvort það sé tilfellið, en sagan ber það eiginlega með sér að hafa verið skrifuð aftur og aftur og aftur, þar til hún varð fullkominn. allt innan sögunar myndar eins konar röklega heild, sem tengir söguna saman eins og góða ritgerð. það er ekkert í sögunni sem er ofaukið, en á sama tíma er ekkert sem vantar. og að lokum skilur sagan mann eftir með fjölmargar spurningar. í sem fæstum orðum: vá.

mynd vikunnar, iii

mánudagur, 3. október


þetta er mynd af rústum dómkirkjunar i st. andrews. ég tók þessa mynd fljótlega eftir að ég kom hingað, en síðan þá er ég búinn að sjá hana á þónokkrum póstkortum--enda sameinar þessi mynd margt af því sem skilgreinir góða mynd samkvæmt kennslubókunum. en þrátt fyrir það, þá læt ég hana vaða . . . fyrirgefið mér ófrumleikann.

steinar og pund, og fet og tommur

sunnudagur, 2. október
eftir karate í dag þá rakst ég á skemmtilega vigt í búningsklefanum. þetta er ein af þessum gömlu, þar sem maður þarf að færa lítil lóð fram og til baka til þess finna réttu þyngdina. ég hef ekki séð svona vigt síðan ég var smástrákur og hvað þá notað svona að ráði, og þess vegna tók það mig svolítinn tíma að ná þessu alveg réttu. eftir puð og moj, tókst mér það þó nokkurn veginn að lokum, en þá tók við annað og öllu erfiðara vandamál: vigtin sagði mig vera tólf steina og þónokkur pund. þar sem ég er ágætlega alinn upp í metrakerfinu kom þetta sér ögn illa. ég veit vel að eitt pund er tæpt hálft kíló, en um steina veit ég afar lítið.

   til þess að auka enn á rugling minn þá var líka innbyggður hæðarmælir í viktina, sem ég komst auðvitað ekki hjá því að prófa líka. illu heilli, þá er þetta bara einn af þessum hlutum sem mér finnst ég alltaf knúinn til þess að prófa. hvað um það, hæðarmælingin var öllu auðveldari viðureignar en vigtunin, enda bara spurning um að standa undir mælitækinu og toga í það þar til það nam við kollinn á mér, rétt eins og skólahjúkrunarkonan gerði manni árlega í skóla. niðurstaðan var sex fet og sex tommur, sem er kannski ögn skárra en úr viktuninni, þar sem ég veit nokkurn veginn hvað hvort um sig þýðir.

   þegar ég les yfir það sem ég er búinn að skrifa núþegar, þá finnst mér ég hljóma ögn eins og forviða, hrokafullur og heimakær túristi úr vesturheimi, en það er ekki ætlunin. ég er alls ekki að gefa í skyn að þetta kerfi sé verra eða kjánalegra (eða betra eða gáfulegra) en metrakerfið, allt og sumt sem ég er að reyna að undirstrika er hið augljósa, að það er frábrugðið. hvort um sig er búið að skjóta rótum sínum í mismunandi samfélögum og festa sig í sessi vegna vana. rétt eins og þeir keyra vinstra meginn hérna, þá nota þeir hugtök sem steina og pund, og fet og tommur, og þeir komast fullkomlega upp með það innan samfélags síns vegna þess að allir gera það og eru orðnir vanir því. það er ekki fyrr en að einhver utanaðkomandi sem hefur vanist einhverju öðru kemur inn í kerfið að einhverjum fer að finnast þetta skrítið. og boðskapurinn með þessu öllu er þessi: eitthvað keimlíkt á við um sérhvert kerfi, munum það næst þegar við fordæmum eitthvað framandi.


og já, svona að lokum, hafi einhver verið að velta því fyrir sér, þá er eitt pund 0,45 kíló; einn steinn er fjórtán pund, eða 6,35 kíló; tomma er 2,54 sentimetrar; og fet er tólf tommur, eða 30,48 sentimetrar.

bugger off, sir . . . please

laugardagur, 1. október
það tekur engan langan tíma að átta sig á því að bretar eru öllu kurteisari en við íslendingar. eflaust verður manni það augljósast ef maður gefur notkun þeirra á litlum orðum á borð við sir og please gaum--og einkum og sér í lagi ef maður áttar sig á því hvenær þeir nota slík orð ekki: nefnilega aldrei. auðvitað geta íslendingar notað sambærileg orð, því bersýnilega eru þau til staðar í málinu, og ef þess þarf með, þá gera þeir það líka oft. en aldrei nokkru sinni hef ég þó heyrt íslending nota slík orð innblásinn af heift og segja, til að mynda: farðu til helvítis, herra . . . ef þú vildir vera svo vænn. það, að bretarnir noti orð á borð við þessi, og önnur slík, sér í lagi í bræði sinni, er afar góð vísbending um að eitthvað sé frábrugðið í grundvallaratriðum milli hugsunarhátts þeirra og okkar. með öðrum orðum, samskipti þeirra eru ekki aðeins gegnsýrð með þessum orðum, heldur eru hugmyndir þeirra um náungann eflaust undirorpnar þeim hugtökum sem orðin tákna. allavega, það sem ég er að reyna að koma orðum að er þetta: mannskilningur breta virðist einfaldlega uppfullur af náungavirðingu, sem okkur íslendinga, því miður, sárlega skortir.

   auðvitað er ég ekki að segja að virðing þeirra við náungann sé algjör, því augljóslega, til dæmis, þá fara bretar í stríð og bretar fremja morð og bretar ræna hvorn annan, rétt eins og íslendingar. en engu að síður, þegar kemur að þeim hversdagsathöfnum sem bera vott um hvað mestan virðingarskort, eins og, bara til dæmis, hegðun okkar í umferðinni og hegðun okkar í biðröðum, þá fer það ekki fram hjá neinum sem veitir því verðskuldaða athygli, að bretar eru okkur einfaldlega öllu betri. eiginlega svo að ég dauðskammast mín. við ættum að skammast okkar . . . .